Félags- og barnamálaráðherra heimsótti Fjörheima
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Jóhann Friðrik Friðriksson, fulltrúi bæjarráðs Reykjanesbæjar, komu á kynningu á starfi ungmennaráðs Reykjanesbæjar og unglingaráðs Fjörheima í félagsmiðstöðnni að Hafnargötu 88 í Keflavík.
Farið var yfir helstu baráttumál ráðanna síðastliðin ár og ungmennin nýttu tækifærið vel til umræðu við ráðherrann og bæjarfulltrúann um mörg áhugaverð málefni. Má þar nefna menntakerfið, umhverfismál og samgöngumál í Reykjanesbæ. Ráðherra nýtti tækifærið einnig vel og spurði ungmennin út í þeirra skoðanir á fjölmörgum málefnum sem varða börn og ungmenni.
Áður en að heimsókninni lauk skoðuðu þeir Ásmundur og Jóhann félagsmiðstöðina og ungmennahúsið og fengu kynningu á öllu því fjölbreytta starfi sem fer þar fram.





 
	
			


 
						 
						 
						 
						 
						 
						

 
				 
				 
				 
				 
				
 
				 
				 
				 
				