Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fékk raflost í baðkari í Njarðvík
Fimmtudagur 3. febrúar 2011 kl. 09:34

Fékk raflost í baðkari í Njarðvík

Rafverktakar hafa verið dæmdir til að greiða konu tæpar fimmtán milljónir króna, auk vaxta, vegna slyss sem hún varð fyrir á heimili sínu í Njarðvík árið 2002.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þá var hún í baði og stóð í baðkarinu með talsvert vatn í karinu. Hún stóð með sturtutólið í hendinni og var að láta vatn renna á sig, þegar hún varð skyndilega fyrir miklum rafstraumi og hreinlega festist þannig standandi. Straumurinn fór um allan líkamann.

Konan hlaut um 50% varanlega örorku vegna slyssins að því er fram kemur í yfirmatsgerð dómskvaddra matsmanna. Hún kveðst hafa fengið exem á hendur vegna slyssins og sé með stöðugan kláða í lófunum. Af þeim sökum geti hún ekki stundað nein þau störf sem reyni á húðina á höndunum. Hún segist jafnan fá hjartsláttarköst, en þeim fylgi magnleysi og sviti og stundum yfirliðstilfinning. Hún segist sofa illa og þurfi ávallt að taka svefntöflur.

Fram kemur í dómnum að það sem olli slysinu var að jarðtaug sem tengist vatnslás baðkars var tengd inn á svokallaða núllskinnu í staðinn fyrir svokallaða jarðskinnu, eins og átti að gera.

Konan stefndi rafverktökunum , sem sáu um að leggja rafmagnið í íbúðina, byggingarverktakanum og Reykjanesbæ. Héraðsdómur sýknaði byggingarverktakann og Reykjanesbæ en stjórnendur rafverktakafyrirtækisins voru dæmdir bótaskyldir.

Það var Héraðdómur Reykjavíkur sem kvað upp dóminn en greint var frá honum á Vísi.