Fékk hjartastopp og taugaáfall eftir að hundurinn dó
Hundurinn hefur oft verið nefndur besti vinur mannsins. Hér á Suðurnesjum eru fjölmargir hundaeigendur en hér hefur ekki verið starfrækt virkt hundaeigendafélag. Guðrún Agnarsdóttir hafði samband við VF og sagðist vera tilbúin til að halda utan um slíkan félagsskap ef áhugi væri fyrir hendi.„Ég fékk mér silki terrier tík í byrjun þessa árs. Ég er þunglyndissjúklingur og tíkin bjargaði mér alveg. Því miður var keyrt á hana 13. október sl. Eftir að ég missti hana fékk ég taugaáfall og hjartastopp. Ég er búin að fá mér annan hund en ég tel að það sé gott fyrir fólk sem er mikið eitt eða haldið þunglyndi, að hafa hund í kringum sig. Ég hef mikinn áhuga á að stofna hundaeigendafélag þar sem hundaeigendur gætu fengið upplýsingar og stuðning með allt sem viðkemur hundinum“, segir Guðrún. Þeir sem vilja vera með í að stofna hundaeigendafélag geta hringt í Guðrúnu í síma 421-5811.