Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fékk ekki að taka svarta beltið þrátt fyrir að standast kröfur
Fimmtudagur 25. maí 2017 kl. 06:00

Fékk ekki að taka svarta beltið þrátt fyrir að standast kröfur

-„Vanhugsað hjá Júdósambandinu,“ segir þjálfari Heiðrúnar Pálsdóttur.

Hin átján ára Heiðrún Fjóla Pálsdóttir úr Njarðvík, sem æft hefur júdó af kappi frá unga aldri, sótti nýlega um að fá að þreyta próf fyrir svarta beltið. Því var hafnað af Tækniráði Júdósambands Íslands þrátt fyrir að Heiðrún hafi uppfyllt allar kröfur samkvæmt gráðureglum Júdósambandsins.

Samhliða æfingum, sem eru 13 til 16 klukkustundir í hverri viku, er Heiðrún þjálfari hjá Júdódeild Njarðvíkur, hefur verið í stjórn deildarinnar í tvö ár, tekið að sér fjölmörg launalaus störf fyrir deildina og haldið utan um fjáraflanir. Fyrir tveimur vikum síðan gerði Heiðrún samning við Geo Silica, sem er hennar fyrsti afrekssamningur. Geo Silica hafði tekið eftir henni og vildi aðstoða hana við að ná enn meiri árangri, enda mikil fyrirmynd. Um síðustu helgi keppti Heiðrún á Norðurlandamótinu, en aðeins bestu keppendur hvers lands eru sendir á svoleiðis mót.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kröfurnar um svarta beltið eru þær að keppandi hafi verið með brúnt belti í ár, hafi náð sextán ára aldri, lendi í efstu þremur sætunum á Íslandsmeistara- eða Afmælismóti JSÍ með brúna beltið og vinna þar minnst tvær glímur, að auki þarf viðkomandi að taka þátt í námskeiði fyrir svarta beltið. Heiðrún hefur verið með beltið í ár, er átján ára gömul, sigraði tvo keppendur á mótinu þar sem hún lenti í öðru sæti og hefur sótt nokkur undirbúningsnámskeið hjá Yoshiko Iura, sem var um árabil landsliðsþjálfari JSÍ og er virtur um allan heim fyrir sína kunnáttu á júdó.

Þjálfari Heiðrúnar, Guðmundur Stefán Gunnarsson, segist ekki skilja hvað liggi undir og hefur deildin kært ákvörðunina til ÍSÍ, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. „Ég held að þeir sem ákveði þetta séu ekkert að reyna að gera neitt illt. Ég held þetta sé bara vanhugsað. Þetta virkar þannig að maður sækir um belti fyrir iðkendur hjá sér sem uppfylla þessar kröfur og þetta ætti að vera skothellt,“ segir Guðmundur, en samkvæmt honum breytti Júdósambandið framburði sínum. „Fyrst segja þeir að gráðan hennar, brúna beltið, sé ekki nógu skýr, en Heiðrún hefur keppt með brúnt belti í ár. Þeir sættast svo á það og segjast vera sammála okkur með það. Þá bjóst ég við því að þetta væri bara klárt og að hún fengi að taka beltið. En þá segja þeir að einum af keppinautum Heiðrúnar, sem hún sigraði á Afmælismótinu, hafi verið veitt undanþága til að keppa og ekki verið í sama styrkleikaflokki og Heiðrún. En þeir tilkynna þennan keppanda ekki sem gest.“ Í kröfum JSÍ um svarta beltið kemur það hins vegar hvergi fram að þeir andstæðingar, sem Heiðrún keppir við, þurfi að vera í ákveðnum styrkleikaflokki. Keppandi verði þó að keppa í sínum þyngdarflokki, sem var raunin í tilfelli Heiðrúnar.

Guðmundur segist ekki skilja hvað liggi að baki ákvörðunarinnar. „Við þurfum kvenfyrirmyndir og þetta er bara svart á hvítu. Skilyrðin fyrir svart belti eru bara þessi.“ Samkvæmt svartbeltaskrá JSÍ frá 1966 til 31. desember 2016 hafa 174 einstaklingar hlotið svart belti í júdó, þar af eru einungis 15 konur.

[email protected]