Fékk ekki að fara í flug vegna ölvunar
Öryggisverðir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar óskuðu eftir aðstoð lögreglunnar á Suðurnesjum á miðvikudagskvöld vegna einstaklings sem þar væri í annarlegu ástandi og fengi ekki að fara í flug af þeim sökum.
Þegar lögreglumenn komu á vettvang reyndist vera um karlmann að ræða sem hafði ætlað að bregða sér til útlanda , en ekki verið hleypt um borð í flugvélina sökum ástands. Maðurinn var svo ölvaður að hann var verulega valtur á fótunum.
Höfðu öryggisverðir sett hann í hjólastól og ferjað hann með þeim hætti út úr brottfararsalnum. Maðurinn var færður á lögreglustöð þar sem hann var látinn sofa úr sér mestu vímuna áður en lögregla gat rætt við hann.