Fékk byltingarkennt súrefnistæki til afnota
Fyrirtæki í Reykjanesbæ, K-Matt, hefur nýlega hafið innflutning á byltingarkenndu tæki fyrir sjúklinga sem eru háðir notkun súrefniskúta, Eclipse að nafni. Kristján Matthíasson rekur K-Matt ásamt konu sinni, Sigríði Ragnarsdóttur, en í dag var fyrsta Eclipse-súrefnissían afhent Gunnari Guðnasyni.
Gunnar hefur í rúm fimm ár verið algerlega háður notkun súrefniskúta allan sólarhringinn. Þegar hann þurfti að notast við súrefniskútana var mikil fyrirhöfn í kringum það og þurfti hann að vera með allt að 10 kúta inni á heimilinu í einu að því ógleymdu að ekki þarf að fylla á tækið eins og kútana. Eclipse-tækið vinnur súrefni úr andrúmsloftinu og er mjög létt og meðfærilegt að sögn Kristjáns, eða um 7,6 kíló.
Verkefnið hófst fyrr í ár þegar Kristján var að hjálpa Gunnari við að finna betri lausnir á sínum málum en eftir samskipti við framleiðendur Eclipse í Bandaríkjunum afréð hann að hefja innflutning á tækinu og stofnaði fyrirtækið ásamt eiginkonu sinni.
Kristján segir að tækið hafi vakið athygli, m.a. hafi yfirlæknir og starfsfólk Lungnadeildar Landspítalans kynnt sér tækið og leist þeim afar vel á. Nú bíða nokkrir aðilar eftir eintökum. „Tækið er notað um allan heim enda mjög meðfærilegt þannig að ég sé fram á að það muni ná fótfestu hér. Ég sé líka fyrir mér að nokkur störf muni skapast hér á svæðinu í þjónustu við eigendur.“
Kristján ákvað í samstarfi við þrjá aðra góða vini Gunnars, Jón Eyfjörð, Sigurð Friðriksson og þann þriðja sem ekki lætur nafns síns getið að afhenda Gunnari tækið til afnota og sagði Gunnar í samtali við Víkurfréttir að honum litist mjög vel á og það veitti honum mikið frelsi og í raun nýtt líf.
VF-mynd/Þorgils - Þeir Kristján og Gunnar með tækið góða.