Fékk á sig brot útaf Sandgerði
Ragnar Björn KE 115 fékk á sig brotsjó um 12-13 sjómílur NV af Sandgerði um kl. 15 í dag. Tvær rúður í stýrishúsi brotnuðu.Jóhann Halldórsson var að draga línuna um kl. 15 þegar báturinn, sem er frambyggður plastbátur fékk á sig hnút. „Það brotnuðu tvær rúður í stýrishúsinu og sjór komst í tæki. Á þessari stundu er ekki vitað hvað skemmdist af tækjum en tjónið er eitthvað“, sagði Jóhann í samtali við Víkurfréttir nú undir kvöld. Jóhann var að draga þegar brotið skall á bátnum og hann lagðist alveg 90° á hliðina. Hann sagði alls ekki hafa verið slæmt í sjóinn. Hann hafi keyrt fulla ferð á miðin. „Þegar brotið skall á bátnum var ég fljótur til að skera á línuna en ég fór marga hringi í huganum til að hugsa hvernig ég ætti að bregðast við þessum aðstæðum. Báturinn var nokkurn tíma á hliðinni en rétti sig síðan aftur. Jóhann þakkaði fyrir að ekki var mótbyr á leiðinni í land, en hann kom í land í smábátahöfninni í Gróf í Keflavík undir kvöld. Þar tók lögreglan í Keflavík á móti honum til skýrslutöku.Aðilar frá tryggingum munu meta tjónið á bátnum á morgun.Ljósmyndir eru væntanlegar á netið.