Feikilegur uppgangur í Reykjanesbæ
Ítarleg umfjöllun um fasteignamarkaðinn á Suðurnesjum
Mikil uppbygging mun eiga sér stað í Reykjanesbæ á næstu misserum. Mikil ásókn er í lausar lóðir og til stendur að hefjast handa við að byggja upp svæði sem staðið hafa auð í lengri tíma.
Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri Umhverfissviðs Reykjanesbæjar, segir að Reykjanesbær sé afar vinsæll uppbyggingarstaður um þessar mundir. Á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs hefur 26 íbúðar- og iðnaðarhúsnæðislóðum verið úthlutað. „Það er feikilega mikill uppgangur. Þessi svæði sem hafa verið skipulögð, þar er allt að fara út.“ Þá er alltaf spurning um það hvort nægilegt vinnuafl fáist til þess að byggja upp þessi hverfi þar sem annars konar uppbygging á svæðinu tekur sinn toll. „Það virðist oft hafa verið sótt um til þess að næla sér í lóðir, en nú eru menn að fara af stað. Menn finna að eftirspurnin er rosalega mikil og þessar lóðir sem eru að fara út núna eru klárlega að fara að byggjast upp fljótlega,“ segir Guðlaugur og bætir því við að mikil vöntun sé á íbúðum fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu eign og eru verktakar að reyna að svara því kalli.
Víkurfréttir spurðu Guðlaug út í nokkur af þeim helstu svæðum sem til stendur að byggja upp á næstunni.
Innri Njarðvík
„Ég held að fólk sjái mikla möguleika í Innri-Njarðvík. Þar mun rísa skóli 2018-19. Við erum svo að fara að stækka Dalshverfi 2 til austurs. Þar verða klárlega minni einingar. Við höfum verið í vandræðum með að úthluta stærri einingum. Það er til skoðunar að breyta skipulagi þannig að einingar verði minnkaðar. Það virðist þó vera það mikill kraftur í umsóknum að okkur finnst ekki ástæða til þess strax.“
Á síðasta fundi umhverfis- og skipulagsráðs var sótt um rúmlega 40 lóðir og þurfti að varpa hlutkesti um nokkrar þeirra þar sem fleiri en einn aðili sóttist eftir sömu lóð. Það hefur ekki gerst síðan í síðasta góðæri. „Núna erum við komin með yatzy-teningana á loft eftir hvern einasta fund. Þeir aðilar sem eiga hlut að máli eru þá oftast viðstaddir og þetta er allt mjög gegnsætt.“
Ytri Njarðvík
Byggðar verða blokkareiningar á gamla fótboltavellinum í Njarðvík fyrir aftan Nesvelli. „Þar er verið að falla frá því að vera með bara íbúðir fyrir aldraða í þá blandaða byggð. Það verður því möguleiki fyrir yngra fólk að komast þar inn. Við gerum ráð fyrir því að það verði til pláss fyrir stækkun hjúkrunarheimilisins þegar að því kemur.“
Nikkel svæðið
Byggingarfélag Gylfa og Gunnars (BYGG) keypti Miðland ehf. sem á land í Hlíðahverfi í Reykjanesbæ, oft nefnt Nikkel svæðið, af Landsbankanum. BYGG átti hæsta tilboðið í félagið í opnu söluferli og greiddi 651 milljón kr. fyrir það. Á svæðinu er gert ráð fyrir byggingu 300 íbúða á um 20 hektara skipulagssvæði samkvæmt samþykktu deiliskipulagi og allt að 185 íbúðum til viðbótar ásamt atvinnuhúsnæði, á samtals um 14 hektara svæði samkvæmt gildandi aðalskipulagi.
„Þetta er frábær staður milli Njarðvíkur og Keflavíkur. Þessir aðilar sem keyptu jörðina af Landsbankanum eru að fara þar af stað. Neðri hlutinn af því svæði er tilbúinn í skipulagi þannig að þeir geta hafist handa þar. Verkefnastaðan er þannig hjá þeim að þeir eru kannski ekki á hraðferð. Ég er búinn að funda tvisvar með þeim og við erum að fara að hittast aftur. Þarna verða að langstærstum hluta einbýlis-, par og raðhús. Fyrsti hlutinn er mjög lágreistur.“
Pósthússtræti
Þar stendur til að reisa blokkir í líkingu við þær sem eru þar fyrir. Guðlaugur segir að aðilar sem hyggjast byggja blokkir við hlið Íslandsbanka séu að fara af stað. Eins er búið að skipuleggja háhýsi við Víkurbraut þar sem gamla saltgeymslan er til húsa. „Mér finnst líklegt að þetta fari af stað á næstunni miðað við eftirspurnina. Það var 7% fjölgun íbúa í bænum þegar við vorum að reikna með 1,6%. Þannig að það þarf að spýta í lófana.“
Vatnsnes
Á Hrannargötu 11 og við hlið Sundhallarinnar er gert ráð fyrir fjórum einingum. Þar er gert ráð fyrir blokkum í fínni kantinum fyrir fólk 45 ára og eldra. Vatnsnesið sjálft veitir mikla möguleika að sögn Guðlaugs og þar eru sjávarlóðir sem eru þegar auðar. Þar hefur verið rætt um að reisa hótel á lóð Stóru milljónar sálugu. Skipulag leyfir slíka byggingu en ekki er víst að af verði.
Flugvellir
Flugvellir eru svæðið vestan við Iðavelli. Það svæði er nánast orðið fullt nú þegar eftir að það var sett í skipulag á síðasta ári. „Þarna verður flugtengd starfsemi. Þarna hafa bílaleigur sótt um lóðir að mestu til þess að vera með aðstöðu. Við höfum lagt áherslu á það að þarna verði byggt þannig að lóðirnar verði ekki fullar af bílum og notuð sem bílastæði. Það verður að leysa geymslu bíla með öðrum hætti. Við höfum verið að skoða það, til dæmis á Patterson svæðinu.“
Motorpark
Svæði við gatnamót Grindavíkurvegar og Reykjanesbrautar. Jarðvangur ehf., félag í eigu Bláa Lónsins, fékk úthlutað tæplega 51.000 fermetra lóð við Breiðasel 73. Þar á að hefja mikla uppbyggingu. „Þar sé ég fyrir mér ferðatengda starfsemi. Langstærstur hluti ferðamanna fer um Reykjanesbraut og heimsækir Bláa Lónið og þarna er gott tækifæri til þess að ná þeim þarna.“
Bjóstu við því að staðan yrði svona eins og hún er núna?
„Þetta er búið að gerast ótrúlega hratt. Ég sé eiginlega mest eftir því að á þeim tíma sem var verið að skera niður, að þá höfum við ekki verið að skipuleggja á fullu fyrir svona tíð. Það átti enginn von á þessari svakalegu uppsveiflu sem við erum í núna. Þetta kemur allt í bylgjum en þetta virðist vera heilbrigðara núna,“ segir Guðlaugur.