Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

FBI vill yfirheyra fimm frá Keflavík
Miðvikudagur 9. október 2002 kl. 08:26

FBI vill yfirheyra fimm frá Keflavík

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) hefur tilkynnt utanríkisráðuneytinu að hún muni stefna fimm lögreglumönnum við embættið til vitnis fyrir rétti í Bandaríkjunum. Þeir eiga að bera vitni í máli ákæruvaldsins gegn frönskum flugþjóni, Michel Philippe, sem er ákærður fyrir að hafa ritað sprengjuhótun á uppsölupoka og spegil á salerni júmbóþotu breska flugfélagsins Virgin Atlantic. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.Flugvélinni var lent á Keflavíkurflugvelli eftir að Philippe sagði flugstjóranum að hann hefði séð hótunina á salerninu en flugvélin var þá á leið frá London til Orlando í Bandaríkjunum í janúar sl. Hótunin á pokanum hljóðaði svo: "Bin Laden er bestur, Bandaríkjamenn verða að deyja, það er sprengja um borð, al-Quaeda." Skilaboðin voru á ensku en orðin bin Laden og al-Quaeda voru rituð með frönskum rithætti. Philippe var handtekinn í New York í mars sl. en hefur verið sleppt gegn 250 þúsund dollara tryggingu. Verði hann fundinn sekur á Philippe yfir höfði sér lífstíðarfangelsi. Hann hefur neitað sök og hafa foreldrar hans beðið Jacques Chirac Frakklandsforseta að skerast í leikinn. Réttarhöldin í málinu hefjast 21. október nk. í Orlando. Að sögn Jóhanns R. Benediktssonar, sýslumanns á Keflavíkurflugvelli, hefur FBI tilkynnt að fimm lögreglumönnum sem unnu að rannsókn málsins verði stefnt til að bera vitni. Utanríkisráðuneytið hefur einnig ákveðið að Jóhann fari með lögreglumönnum utan en ekki er ljóst hvort hann muni bera vitni. Fulltrúi FBI er nú staddur hér á landi og hefur rætt við utanríkisráðuneytið um tilhögun stefnanna. Stefnurnar bárust til landsins í gærkvöld en hafa ekki formlega verið birtar. Gert er ráð fyrir að lögreglumennirnir fari til Bandaríkjanna 18. október nk. Þar munu þeir ásamt sýslumanni sækja undirbúningsfund með bandarískum saksóknara en alls munu þeir dvelja ytra í í 8-9 daga á meðan réttarhöldin standa yfir. Allur kostnaður við ferðina verður greiddur af bandarískum yfirvöldum.
Lögreglan á Keflavíkurflugvelli sá um vettvangsrannsókn eftir að flugvélin lenti á Keflavíkurflugvelli og er greinilegt að FBI er mikið í mun að afla vitnisburðar íslensku lögreglumannanna.
Eins og fyrr segir fannst hótunin um borð í breskri flugvél en það eru engu að síður Bandaríkjamenn sem ákæra Philippe. Er hann m.a. ákærður fyrir að hafa hótað að nota gereyðingarvopn gegn bandarískum ríkisborgurum en verjandi hans segir að sú ákæra standist ekki þar sem flugvélin hafi verið utan bandarískrar lögsögu þegar hótunin var gerð, segir í Morgunblaðinu.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024