FÁUM VONANDI NIKKELSVÆÐIÐ AFHENT FLJÓTLEGA- SAGÐI JÓNÍNA SANDERS BÆJARFULLTRÚI
Lóðamál í Reykjanesbæ voru mál málanna á síðasta fundi bæjarstjórnar Reyjanesbæjar. Jóhann Geirdal (J) sagði að meirihlutinn hefði brugðist í sambandi við lóðaúthlutun og það væri ekki furða að lítið væri byggt í bæjarfélaginu. Minnihlutinn vill leggja megináherslu á uppbyggingu I-Njarðvíkurhverfis en meirihlutinn nefnir helst Nikkelsvæðið og Grænáshverfi þegar talið berst að framtíðarskipulagi byggðar í Reykjanesbæ.Á bæjarstjórnarfundi fyrir um hálfum mánuði síðan, bar Jóhann Geirdal fram fyrirspurn um hversu margar lóðir væru lausar til úthlutunar í Reykjanesbæ. Ekkert svar hafði borist fyrir bæjarstjórnarfund nú á þriðjudag og sagði Jóhann það vera lítilsvirðingu við lýðræðið að svara ekki slíkri fyrirspurn. Hann gagnrýndi meirihlutann harðlega fyrir að standa sig ekki í lóðaúthlutunum. Jóhanni var einnig tíðrætt um Innri-Njarðvíkurhverfið, en þar stendur til að reisa nýjan grunnskóla á næstu árum. „Það er engin furða að lítið byggist í I-Njarvík því í dag er t.d. bara ein byggingarlóð laus í því hverfi. Ef fólk vill ekki byggja á þeirri lóð þá getur það bara farið annað. Skipulagið fyrir I-Njarðvík er líka löngu úrelt og þar af leiðandi gagnslaust“, sagði Jóhann. Skúli Skúlason (B) stóð því næst upp til að svara Jóhanni. Fyrir mistök þá höfðu upplýsingarnar um lóðir lent á borði bæjarráðs, og útskýrði Skúli þau mistök. Hann upplýsti fundarmenn um að engin ljós væri laus í Ytri-Njarðvík, á teikniborðinu væru 180 lóðir í Grænáshverfi, um 10 lóðir á Berginu en aðeins ein lóð í I-Njarðvík.Jónína Sanders (D) mótmælti þeim orðum Jóhanns að meirihlutinn hefði sýnt metnaðarleysi í þessum málum. Hún sagði að menn horfðu nú til Nikkelsvæðisins sem næsta byggingarsvæðis og sagðist vona að bærinn fengi það svæði afhent fljótlega. Grænáshverfið væri líka mjög spennandi svæði.Kristmundur Ásmundsson (J) tók undir orð Jóhanns, flokksbróður síns og sagðist vilja láta leggja áherslu á uppbyggingu í I-Njarðvík vegna væntanlegs grunnskóla. Sjálfur myndi hann aldrei vilja byggja í Grænáshverfi vegna flugvélahávaða sem þar er.