Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fastur á hótelherbergi í tvo sólarhringa og bílaleigubíllinn á kafi í vatni
Fimmtudagur 14. október 2010 kl. 10:22

Fastur á hótelherbergi í tvo sólarhringa og bílaleigubíllinn á kafi í vatni

Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson lenti í hremmingum á dögunum í Slóveníu þegar hann var þar við æfingar fyrir heimsmeistaramótið í borðtennis sem fram fer í Suður-Kóreu síðar í mánuðinum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Miklir vatnavextir urðu í á sem rennur framhjá hóteli Jóhanns. Hann sagðist í samtali við Víkurfréttir hafa horft á ána vaxa um 5-6 metra og verða að beljandi fljóti sem m.a. hafi skollið á hótelinu þar sem hann gisti. Bílakjallari hótelsins fylltist af vatni og bílaleigubíll Jóhanns fór á kaf í flóðvatnið. Lyftugöng hótelsins urðu einnig umflotin vatni og því var Jóhann fastur á 2. hæð hótelsins í tvo sólarhringa ásamt 22 öðrum mönnum sem eru bundnir við hjólastóla.

Jóhann segir lífsreynsluna vera óþægilega og það að vera fastur á 2. hæð hótelsins hafi verið erfitt. Þannig hafi hann og félagar hans ekki komist í matsal hótelsins og því hafi starfsfólkið þurft að koma með allar máltíðir inn á herbergin.
Í ferðinni til Slóveníu hafi Jóhann spilað borðtennis í æfingabúðum við þá sem skipa 1. til 5. sætið á heimslistanum í sínum flokki. Jóhann er einmitt á förum til Suður-Kóreu á miðvikudag í næstu viku til að taka þátt í heimsmeistaramótinu í borðtennis. Átján bestu borðtennisspilarar heims í hans styrkleikaflokki etja þar kappi saman og var Jóhann Rúnar 14. inn á mótið.

Hann sagðist fullur tilhlökkunar. Hann hafi hins vegar ekki hugmynd um hvaða mótherja hann fái en hann á von á að þessum 18 spilurum verði skipt upp í sex riðla. Jóhann vonast eftir góðu dagsformi og sagðist vera vel undirbúinn fyrir mótið. Undirbúningurinn hafi verið öðurvísi nú en oft áður og hann á allt eins von á því að geta komið mótherjum sínum verulega á óvart.