Fasteignaverð hefur tekið kipp á Suðurnesjum
Að sögn fasteignasala á Suðurnesjum er markaðurinn nú í góðri uppsveiflu. Framboð á eignum er aftur að aukast eftir nokkra lægð og fasteignaverð fer hækkandi. Mest eftirspurn hefur verið eftir þriggja herbergja íbúðum og hafa þær hækkað hlutfallslega mest í verði miðað við aðrar eignir. Þróunin í Garði og Sandgerði hefur haldist í hendur við þróunina í Reykjanesbæ, en góð hreyfing hefur verið á eignum þa sömuleiðis. Fasteignasalar eru sammála um að allt of lítið hafi verið byggt á Suðurnesjum að undanförnum og þeir bíða spenntir eftir að lóðaúthlutanir hefjist í Grænáshverfi, Innri-Njarðvík og Nikkel-svæðinu margumtalaða.
3ja herbergja íbúðir hækka mest
Jón Gunnarsson, hjá Fasteignasölunni Ásbergi, segir mesta vöntun vera á minni íbúðum og verð á þeim hafi því hækkað. „Ég get tekið sem dæmi þriggja herbergja íbúðir í Heiðarholtinu. Þær hafa verið að fara á 5,4 millj. kr. en eru nú að seljast á 6,4 millj. Hið sama má segja um tveggja herbergja íbúðir.“ Jón segir að mikið hafi verið um að fólk af landsbyggðinni hefði flust á Suðurnesin, því fasteignverð hér væri enn töluvert lægra en í Reykjavík. „Fólki finnst ekkert mál að aka þenna spotta til og frá vinnu og eins og er, er mun hagstæðara að kaupa hér en í bænum.“
Leigumarkaðurinn hefur verið mjög erfiður að undanförnu og Jón segir að hann fái mikið af fyrirspurnum um leiguíbúðir. „Við erum ekki með neinar leiguíbúðir á skrá hjá okkur og vísum fólki á blöðin, en þar er víst ekki heldur um auðugan garð að gresja.“
Jón segir að fólk sé þegar farið að spyrja töluvert mikið um lóðir á Grænássvæðinu og þau hjá Ásbergi bíði spennt eftir lóðaúthlutunum þar.
Framboð að aukast
Hljóðið var létt í Sigurði Ragnarssyni, fasteignasala hjá Eignamiðlun Suðurnesja þegar VF sló á þráðinn til hans. Hann sagði stöðuna í dag vera svipaða og hjá kaupmönnum. „Við erum búnir að fá fullt af vörum fyrir jólin. Salan var gríðarleg í sumar og þá myndaðist ákveðið tómarúm á markaðinum. Að undanförnu hefur verið að týnast inn úrval af frambærilegum eignum og ég get því sagt að það horfi betur fyrir kaupendum nú en hefur verið í þó nokkurn tíma. Nú vantar helst góðar 2-3ja herbergja íbúðir.“
Fasteignaverð hefur tekið kipp í haust en Sigurður telur að þar hafi átt sér stað ákveðin leiðrétting gagnvart Reykjavíkurmarkaðinum. Að sögn Sigurðar hefur verið ágætis hreyfing í Garði og Sandgerði og fasteignir þar eru farnar að hækka í verði, þó að sú hækkun taki e.t.v. lengri tíma en í Reykjanesbæ.
Vantar byggingarlóðir
Guðlaugur H. Guðlaugsson, hjá Fasteignasölunni Stuðlabergi, segir að framboðið sé alls ekki nógu mikið miðað við eftirspurn og því hafi verðið hækkað. „Okkur vantar byggingarlóðir og það er auðsjáanlegt að lóðaskortur er farinn að hafa áhrif á fasteignmarkaðinn hér. Menn eru að tala um að þeir muni sækja um lóðir á Grænássvæðinu þegar þar að kemur, en þeir eru ekki byrjaðir að úthluta, þannig að maður veit ekki hvernig fer. Ég er sérstaklega spenntur fyrir Innri-Njarðvík sem byggingarsvæði og finnst að bæjaryfirvöld ættu að drífa í að ganga frá því máli“, segir Guðlaugur.