Fasteignamat í Reykjanesbæ hefur hækkað mun meira en á höfuðborgarsvæðinu
Í nóvember á hverju ári ákveður yfirfasteignamatsnefnd á vegum ríkisins framreikningastuðla fyrir skráð matsverð fasteigna með hliðsjón af breytingum verðlags fasteigna við kaup og sölu frá nóvembermánuði fyrra árs. Í ár bregður svo við að fasteignamat í 18 sveitarfélögum hækkar um 15% og er Reykjanesbær í þeim hópi.
Á sama tíma hækkar fasteignamat á höfuðborgarsvæðinu almennt um 5%. Þetta er ánægjulegt með tilliti til hækkunar á verðmæti eigna í Reykjanesbæ en af þessum sökum verða talsverðar hækkanir á þeim gjöldum sem byggja á fasteignamati án þess að sjálf álagningarprósentan hækki, eins og reyndin er í flestum tilvikum í Reykjanesbæ, segir í frétt frá Reykjanesbæ.