Fárviðri á Suðurnesjum
Aftakaveður hefur geisað á Suðurnesjum í dag og á Keflavíkurflugvelli mældist vindhraðinn hvað mestur um 72 hnútar eða um 30 metrar á sekúndu. Mikill viðbúnaður er hjá björgunar- og hjálparsveitum á Suðurnesjum sökum veðurofsans.
Á Keflavíkurflugvelli urðu vindhviðurnar það miklar að stærsta flutningavélin sem á ferðir um Ísland, Antonov, sem vegur um 400 tonn færðist í vindhviðunum um 40 gráður og munaði minnstu að illa færi fyrir vélinni.
Þá hafa sól- og garðhús í einbýlishúsum orðið fyrir skemmdum í veðurofsanum og hafa ýmsir lausamunir orðið veðrinu að bráð.
Á nýja iðnaðarsvæðinu í Helguvík fauk mikið magn af þakplötum af nýbyggingu og er talið að tjónið sé töluvert.
Búist er við stormi á Suðvesturmiðum, Faxaflóamiðum, Breiðafjarðarmiðum, Vestfjarðamiðum, Norðvesturmiðum, Norðausturmiðum, Austurmiðum, Austfjarðamiðum, Suðausturmiðum, Vesturdjúpi, Grænlandssundi, Norðurdjúpi, Austurdjúpi, Færeyjardjúpi, Suðausturdjúpi, Suðurdjúpi og Suðvesturdjúpi.
Veðurhorfur til kl. 18 á morgun: Viðvörun: Búist er við stormi víða um land. Spá: Suðvestan átt, 18-25 vestanlands og í kvöld einnig á austanverðu landinu. Snjó-, haglél, skúrir og jafnvel eldingar um landið vestanvert en úrkomuminna A-lands. Kólnandi, hiti í kringum frostmark í kvöld. Lægir í nótt og fyrramálið, en gengur í allhvassa suðaustanátt með rigningu S- og V-lands síðdegis á morgun og þá hlýnar á ný.
VF-myndir/ [email protected]