Farþegum neitað um far til Reykjanesbæjar
-Leigubílstjórar ósáttir við vinnubrögð nokkurra aðila sem koma óorði á stéttina
„Gjörðu svo vel, ég skal taka töskurnar þínar en hvert ertu að fara,“ heyrist frá leigubílstjóranum. „Ég er að fara niður í Reykjanesbæ,“ segir konan. „Því miður þá keyri ég ekki þangað, ég fer aðeins til Reykjavíkur,“ segir leigubílstjórinn.
Þetta er kannski dæmigerð saga um leiðinleg tilvik sem koma upp af og til hér á Suðurnesjum þar sem farþega upp í Leifsstöð er neitað um far. Sumir segja þessi tilvik vera dæmi um storm í vatnsglasi en aðrir hafa áhyggjur af þessu þar sem um tugmilljóna króna rekstur er að ræða.
Fyrir skömmu síðan kom kona inn á hótel hér í Reykjanesbæ og kvartaði undan leigubílstjóra sem, að hennar sögn, hafi ekki viljað keyra hana niður í Reykjanesbæ vegna þess að hann vildi keyra til Reykjavíkur. Konan fékk þó far á endanum þar sem henni var boðið að sitja í með öðrum farþega sem var á leið til Reykjavíkur.
„Svona var sagan sem við fengum hér,“ sagði Bergþóra Sigurjónsdóttir, hótelstýra Flughótelsins, við Víkurfréttir þegar málið var kannað. „Þetta er rosalega þreytandi og algjörlega óviðunandi.“ Bergþóra segir það alvitað að leigubílstjórarnir vilji bara „túrinn“ í Reykjavík. „Það var svolítið um þetta hérna einu sinni en ég hef ekki heyrt af neinu sérstöku fyrr en núna,“ sagði Bergþóra og bætti því við að það væri einn og einn sem er alltaf til vandræða.
Um það bil 25 leigubílar eru við Flugstöð Leifs Eiríkssonar að jafnaði og bíða þeir þar í röð eftir viðskiptavinum. Eru þetta allt leigubílar frá Suðurnesjum þar sem ný lög um leigubílaakstur taka ekki gildi fyrr en 1. október á þessu ári en þau heimila leigubílum frá Reykjavík að taka farþega hér á Suðurnesjum og öfugt. Viðskiptavinir borga rúmar 8000 kr.- fyrir akstur til Reykjavíkur en um 1200 kr.- fyrir far til Reykjanesbæjar. Það segir sig sjálft að leigubílstjórar fá meira í vasann fyrir Reykjavíkurferðina.
„Skil ekki lætin“
„Ég skil ekki þessi djöfulsins læti í þessari manneskju, hún borgaði ekki krónu fyrir þá þjónustu sem hún fékk,“ sagði Magnús Jóhannsson, starfsmaður Ökuleiða í Reykjanesbæ. „Bílstjórinn vildi frekar fara inn í Reykjavík en það er ákveðið að henni sé skutlað niður eftir og það var gert. Hún borgaði ekkert fyrir það en síðan hélt bílstjórinn áfram með manninn til Reykjavíkur.“ Samkvæmt bílstjóranum var konan dónaleg og tuðaði í honum alla leiðina niður í Keflavík. „Við erum oft búnir að lenda í því, kannski meira hérna niður frá, að það er hellt svívirðingum yfir okkur þegar við erum að fara með farþegana heim af böllunum fyrir okur og annað. Þetta fólk er búið að eyða 10 til 20 þúsundum inni á börunum og er síðan brjálað út af 600 kr.- sem við tökum fyrir að skutla þeim heim.“ sagði Magnús.
„Bara hluti af starfinu“
Ingólfur Jónsson er formaður stéttarfélagsins Fylkis sem er félag bílstjóra á Aðalbílum. Hann segir meirihluta leigubílstjóra annt um starfið sitt og reyni að koma vel fram við kúnnanna. „Maður lendir í þessu sjálfur að fara niður í Reykjanesbæ en það er bara hluti af starfinu. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þetta kemur fyrir þ.e.a.s. að viðskiptavinir fái einhver ónot í bakið yfir því að vera að fara niður í Reykjanesbæ en sem betur fer fara þessum skiptum fækkandi,“ sagði Ingólfur.
Um það bil 40 bílar sinna leigubílaakstri hér á svæðinu og segir Ingólfur nokkra aðila áberandi erfiða. „Þegar þeir lenda í þessu þá kemur það illa út fyrir stéttina í heild sinni.“ Ingólfur sagði í samtali við Víkurfréttir að það væri almennt þannig að leigubílstjórar keyri viðskiptavini sína hvert sem er án þess að segja nokkuð um það en síðan séu til tilvik þar sem menn hafi ekki verið sáttir og hafi látið viðskiptavinina finna fyrir því. „Það hefur komið fyrir að þeir hafi látið viðskiptavini finna fyrir því með ökulagi, svipbrigðum eða beinum ónotum en svo kemur fólkið niður á hótel og þorir náttúrulega ekki að segja orð við bílstjórann,“ sagði Ingólfur. „Meirihluti bílstjóra sinnir þessari vinnu vel og keyrir farþega á þá staði sem þeir vilja svo að stéttin er náttúrulega ósátt við þá aðila sem gera það ekki. Við viljum ekki að einhverjir aðilar eyðileggi orðspor okkar hinna, það er á hreinu,“ sagði Ingólfur.
Allir virðast þó vera sammála um það að þegar þetta kemur fyrir þá eru menn teknir fyrir. Einnig hefur verið rætt um að setja á leigubílstjóra afgreiðslubann ef það endurtekur sig.
Oddgeir Garðarsson, stöðvarstjóri Aðalbíla, sagði menn tekna á teppið ef þetta kemur upp þ.e.a.s. að leigubílstjórar neituðu viðskiptavinum far niður í Reykjanesbæ. „Meginreglan er sú að viðskiptavinurinn fær far þangað sem þeir vilja,“ sagði Oddgeir.
„Mikilvægur hluti af tekjum leigubílstjóra“
Steinþór Jónsson, hótelstjóri hjá Hótel Keflavík, segir fyrirtæki sitt hafa greitt tugmilljóna króna á síðustu tuttugu árum til leigubílstöðva á Suðurnesjum, fyrir utan þá gesti sem borga sjálfir t.d. aðra ferðina. „Það hljóta allir að sjá að þetta er mjög mikilvægur hluti af tekjum leigubílstjóranna þ.e.a.s. þessi leggur á milli Reykjanesbæjar og flugstöðvarinnar,“ sagði Steinþór. „Það sem þarf í fyrsta lagi er hugarfarsbreyting hjá þeim bílstjórum sem þetta stunda því ef þeir ætla að sleppa þessum tekjum þá lækkar heildarinnkoman hjá þeim öllum. Þó svo að þú sért ekki að fá Reykjavíkurtúr í dag þá jafnast þetta út í heildina,“ sagði Steinþór og bætti því við að það væri enginn svo óheppinn að fá aldrei Reykjavíkurtúr. „Sameining leigubílastöðvanna er löngu tímabær en hún myndi auðvelda öll samskipti við leigubílstjóra þar sem hægt væri að tala við þá alla í einu en ekki alltaf í tveimur hollum. Þetta er hlutur sem við hljótum að sjá gerast í náinni framtíð þ.e.a.s. að þessar stöðvar sameinist og taki alvarlega á þessum uppákomum og leysi þau jafnóðum.“
Sögur um leiðinleg atvik hafa borist hótelinu og koma þær ekki bara frá hótelgestum heldur líka íbúum Reykjanesbæjar sem eru að koma með flugi og vilja fá far heim til sín.
„Þetta má bara aldrei koma upp. Leigubílastöðvarnar verða að snúa bökum saman og sýna og sanna að þau séu að hugsa um heimamarkaðinn númer 1, 2 og 3,“ sagði Steinþór.
Forsvarsmenn allra aðila segja þó að þessum uppákomum fækki með árunum en ekki er þó víst hvernig leigubílaakstur frá flugstöð Leifs Eiríkssonar verði eftir lagabreytingarnar sem taka gildi 1. október. Þá munu leigubílar frá Reykjavík flykkjast á Suðurnesin og heyja harða samkeppni við leigubílastöðvarnar á svæðinu. Þó nokkrir af lýst áhyggjum sínum yfir þessum lögum þar sem talið er að leigubílstjórar af Stór-Reykjavíkursvæðinu muni einungis keyra til farþega til Reykjavíkur. Ef svo er þá mun það hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir ferðaþjónustu á Suðurnesjum.
[email protected]