Farþegarnir loks á leið til Moskvu
Nú virðist sem farþegar í Airbus flugvélinni sem nauðlent var á Keflavíkurflugvelli nú í morgunsárið vegna sprengjuhótunnar séu loks á leið til Moskvu eins og upphaflega var lagt upp með. Ljósmyndari Víkurfrétta náði myndum af vélinni um klukkan 18:00 en áætluð brottför var núna klukkan 18:30. Vélin sem er af gerðinni A330 var á leið frá New York til Moskvu neyddist til þess að lenda á Keflavíkurflugvelli vegna sprengjuhótunar sem barst til vélarinnar en 253 farþegar voru um borð í vélinni.
Málið hefur því fengið farsælan endi en eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum hefur vélin verið hér síðan klukkan 6:30 og hafa farþegar haldið til við fremur óþægilegar aðstæður efrir því sem Víkurfréttir komast næst. Rannsókn lögreglu er því á lokastigi en tveir farþega voru með réttarstöðu grunaðra en þeim var sleppt að lokinni yfirheyrslu.