Farþegar tóku vel við ábendingum og mæta fyrr
Gríðarlegt álag í stöðinni. Um 23 þúsund farþegar á sólarhring þegar mest er
„Staðan hjá okkur er mun betri núna heldur en fyrir rúmri viku síðan. Þær aðgerðir sem við fórum í að biðja farþega um að mæta fyrr hafa skilað góðum árangri, nú mæta farþegar fyrr og innritun opnar fyrr,“ segir Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Isavia vegna ófremdarástands í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í vopnaleit. Langar biðraðir mynduðust við vopnaleitina en bilanir hafa verið í nýjum öryggisleitarlínum sem settar voru upp í vor. Þá hefur aukning ferðamanna verið enn meiri en gert var ráð fyrir.
„Við höfum við náð fjórum nýjum öryggisleitarlínum í notkun og þjálfað mikið af starfsmönnum á þær. Þær eru með sjálfvirku bakkakerfi þannig að bakkarnir koma til baka á neðra færibandi og færast sjálfir til farþegans. Nú ganga raðirnar því hraðar, en við erum ennþá með mjög mikinn farþegastraum um flugstöðina, allt upp í 22-23 þúsund manns á sólarhring þessa stærstu daga og við búumst við þessum tölum í júlí og ágúst á sunnudögum og fimmtudögum sérstaklega.“
Guðni segir samstarfið hafa verið sérlega gott við flugfélög og innritunaraðila og innritunaraðilar hafi verið fljótir að bregðast við og opnað innritun fyrr á morgnana til þess að hægt væri að dreifa álaginu. „Nú hefst innritun á þessum álagstímum um þremur tímum fyrir brottför og við hvetjum fólk ennþá til þess að mæta snemma til þess að forðast langar raðir og geta notið tímans betur í upphafi ferðalagsins,“ segir Guðni.
Unnið er hörðum höndum að stækkun flugstöðvarinnar og á efri mynd má sjá viðbyggingu til vesturs en að neðan til austurs en framkvæmdir við þá stækkun hefjast fljótlega.