Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Farþegar í fyrsta sinn yfir milljón á einum mánuði á Keflavíkurflugvelli
Farþegar í flugstöð Leifs Eiríkssonar sumarið 2017. VF-mynd/pket.
Fimmtudagur 10. ágúst 2017 kl. 06:00

Farþegar í fyrsta sinn yfir milljón á einum mánuði á Keflavíkurflugvelli

Farþegafjöldi á Keflavíkurflugvelli í júlímánuði var rétt tæplega 1,1 milljón og er þetta í fyrsta sinn sem fjöldinn innan eins mánaðar fer yfir eina milljón. Um er að ræða 22,21% fjölgun frá árinu 2016 og er það nokkrum prósentustigum yfir farþegaspá Isavia sem gefin var út í fyrra. Það sem af er ári hafa 4,87 milljónir farþega farið um flugvöllinn. Farþegatalningin nær yfir komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega og skiptist nokkuð jafnt í þrennt. Í júlímánuði voru brottfararfarþegar 337.885, komufarþegar 368.425 og skiptifarþegar 393.172. Í júnímánuði voru farþegar um 930 þúsund talsins þannig að samtals fóru yfir tvær milljónir farþega um flugvöllinn þessa tvo mánuði, álíka margir farþegar og fóru um völlinn allt árið 2010. 
 
Þrátt fyrir metfjölda farþega náðist sá frábæri árangur í öryggisleit að 92% farþega beið skemur en fimm mínútur í röð og lengsti biðtími var rétt yfir tíu mínútum. 99% farþega biðu minna en 10 mínútur.Verður það að teljast mjög góður árangur í þessum metmánuði, segir á isavia.is en þetta er veruleg framför frá síðasta sumri en þá voru oft langar raðir. Svipaðar tölur voru í þessum þætti eftir júnímánuð, 89% farþega biðu 5 mín. eða minna og 98% undir 10 mín.

„Þessi frábæri árangur, í þriðja stærsta mánuði í sögu flugvallarins, hefur náðst með því að taka í notkun fullkomnari tækjabúnað, endurskipuleggja vinnubrögð og fjölga starfsfólki. Það er sérstaklega ánægjulegt hvað vel hefur gengið að ráða inn nýtt starfsfólk og hversu hratt það hefur náð að tileinka sér fagleg og góð vinnubrögð,“ segir Þröstur Söring framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Keflavíkurflugvallar á heimasíðu Isavia.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024