Farsælt samstarf framlengt til þriggja ára (video)
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur og Landsbankinn í Keflavík hafa ákveðið að endurnýja samstarf sitt og verður Landsbankinn aðalstyrktaraðili körfuknattleiksdeildarinnar næstu þrjú árin. Það voru Friðgeir Magni Baldursson, útibússtjóri Landsbankans í Keflavík, og Sigurður B. Magnússon, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur sem undirrituðu samninginn.
“Samstarfið hefur verið afar ánægjulegt, gefandi og báðum aðilum til heilla allt frá því að til þess var stofnað fyrir meira en áratug síðan,” segir Friðgeir Magni Baldursson, útibússtjóri Landsbankans í Keflavík. “Samstarfssamningurinn við körfuna í Keflavík er Landsbankanum mikils virði og það er ekki amalegt að geta staðið þétt með einu öflugasta körfuboltaliði landsins.”
“Við erum afar þakklát fyrir stuðning Landsbankans í gegnum árin. Það er gífurlega mikilvægt að hafa traustan fjárhagslegan bakhjarl og hvetjum við félagsmenn okkar og stuðningsmenn að láta bankann njóta þess,” segir Sigurður B. Magnússon, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.
Landsbankinn hefur frá fyrstu tíð unnið dyggilega með ungu fólki og íþróttafélögum um land allt. Með stuðningi sínum gerir bankinn íþróttafólki kleift að leggja stund á íþrótt sína af kappi. Það er að auki hluti af heildarstefnu Landsbankans að vinna með ungu fólki og efla íþróttahreyfinguna á landsvísu.
Ávinningurinn af samstarfinu er gagnkvæmur. Körfuknattleiksdeildin fær öflugan fjárhagslegan bakhjarl og iðkendur á vegum hennar njóta sérstakra fríðinda. Samningurinn er að hluta til árangurstengdur og því geta Keflvíkingar sjálfir hækkað framlagið ef meistaraflokkar karla og kvenna endurheimta marga af þeim titlum sem þeir unnu á síðasta ári.
Ávinningur viðskiptavina Landsbankans er líka töluverður. Félagar í Sportklúbbi bankans fá frítt á alla leiki og þá munu Námufélagar sem fyrr fá helmingsafslátt á leiki karla og kvenna í Iceland Express deildinni. Þá mun Landsbankinn styrkja unglingastarf körfuknattleiksdeildar m.a. með því að bjóða þeim sem eru félagar í Sportklúbbnum og Námunni að stunda æfingar frítt í einn mánuð á æfingatímabilinu.
Video: Viðtal við Friðgeir Magna Baldursson (.mov)