Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Farið fram á heilsárs landvörslu á Reykjanesskaga
Sogin. Ljósmynd: Ellert Grétarsson
Þriðjudagur 27. október 2015 kl. 10:12

Farið fram á heilsárs landvörslu á Reykjanesskaga

- segir í bókun stjórnar Reykjanes Geopark

Á fundi stjórnar Reykjanes Geopark sem haldinn var fimmtudaginn 22. október 2015 var fjallað um landvörslu á Reykjanesskaga. Eftirfarandi var bókað:

Stjórn Reykjanes Geopark telur brýnt að efla landvörslu á Reykjanesskaga. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu ferðast um 40% erlendra gesta um svæðið yfir sumartímann en 50% þeirra yfir vetrarmánuðina. Stöðug aukning hefur verið á fjölda gesta á svæðinu, gistináttum hefur fjölgað undanfarin tvö ár, meðal gistináttafjöldi hefur aukist og hvergi er minni árstíðarsveifla í rekstri ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni.

Stöðugur straumur ferðamanna allt árið um kring hefur gert það að verkum að aukið álag er á viðkvæmum svæðum. Mörg svæði eru viðkvæm frá náttúrunnar hendi og þola illa aukið álag verði ekkert að gert, sérstaklega yfir vetrartímann. Þannig er Reykjanes fólkvangur t.d. á rauðum lista Umhverfisstofnunar yfir ástand friðlýstra svæða, en utanvegaakstur er mikið vandamál allt árið um kring á þessu svæði.

Sveitarfélög og hagaðilar hafa, á vegum Reykjanes Geopark, samþykkt að ráðast í metnaðarfull verkefni á næstu árum á nokkrum af þeim svæðum sem eru undir miklu álagi fyrir allt að 300 milljónir króna. Þá stendur til að auka fræðslu og bæta úr merkingum. Í ljósi alvarleika málsins fer stjórnin fram á það við Alþingi að heimild fáist á fjárlögum til að ráða landvörð á Reykjanesskaga í heilsárs stöðu rétt eins og í öðrum landshlutum. Áætlaður kostnaður við verkefnið er um 12 milljónir á ári. Reykjanes Geopark, Reykjanesfólkvangur og Umhverfisstofnun hafa lýst yfir vilja til samstarfs um verkefnið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024