Fara frá Keflavík til Suðurskautslandsins
Undanfarin misseri hefur rússneskt skip sést með reglulegu millibili í Keflavíkurhöfn. Um er að ræða vísindaskip sem veðurfræðistofnunin í Múrmansk á, en skipið siglir með ferðamenn allan ársins hring. Að sögn Alexanders Morte, stýrimanns á skipinu var það að koma frá Svalbarða og í gær hélt það áleiðis til Grænlands með um 50 farþega. Skipið kemur hingað til lands 21. september nk. og heldur úr höfn þann 22. áleiðis til Hollands, þar sem það fer í slipp. 30 manna áhöfn er á skipinu og segir Alexander að þegar skipið komi úr slipp í Hollandi sé ferðinni heitið til Suðurskautslandsins. Áður en haldið verður í þá siglingu verður skipt um áhöfn, því gert er ráð fyrir að siglingin taki um 6 vikur. Alexander sagði að Prófessor Molchanov, en það heitir skipið, verði næst á Íslandi næsta vor eða í byrjun sumars.