Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Fannar skrifar Grindvíkingum
Laugardagur 20. janúar 2024 kl. 13:55

Fannar skrifar Grindvíkingum

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, hefur sett saman pistil til Grindvíkinga.

Kæru Grindvíkingar, 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er erfitt að finna orð til að lýsa atburðum liðinnar viku, en þegar eldgosið hófst á sunnudag hafði verið ráðgert að hefjast handa við gerð áhættumats á bænum og rýma hann á mánudag. Nú er staðan gjörbreytt frá því sem hún var fyrir rétt um viku síðan. 

Í dag búum við Grindvíkingar við enn meiri óvissu og það fer ekki framhjá neinum að hljóðið í mörgum íbúum er orðið býsna þungt eins og kom bersýnilega fram á fjölmennum íbúafundi á þriðjudag. Þrátt fyrir að íbúafundurinn hafi verið mörgum erfiður þá skiptir máli að íbúar hafi tækifæri til að koma skoðunum sínum og óskum á framfæri við stjórnvöld milliliðalaust. 

Í þessari viku höfum við átt fjölda funda með ráðherrum og ráðuneytisfólki og hafa húsnæðismálin verið í fyrirrúmi sem og áhrif aðstæðna á börn og ungmenni. Það er von mín að þegar Alþingi kemur saman eftir helgi förum við að sjá löggjöf sem lýtur að fleiri lausnum fyrir Grindvíkinga. 

Kallað eftir húslyklum Grindvíkinga
Í byrjun vikunnar var tekið til við að að safna húslyklum bæjarbúa svo að unnt væri að fara inn í hús þeirra til að kanna ástand hitakerfa. Hægt var að skila lyklum bæði í Þjónustumiðstöðina við Tryggvagötu og til Brunavarna Suðurnesja í Reykjanesbæ. Mörg hundruð lyklum var safnað og getur fólk enn skilað inn lyklum.  

Píparasveit kannar aðstæður á fasteignum
Á síðustu dögum hefur vösk sveit pípara farið ásamt lögreglu og björgunarsveitafólki inn í húsnæði þeirra Grindvíkinga sem skiluðu lyklum og brugðist við aðstæðum þar sem þess þurfti. Þar með tókst að hleypa aftur á heitu vatni á hluta bæjarins sem og rafmagni. Rafmagnið fór þó af bænum tímabundið vegna bilunar í stofnstreng en rafmagn er komið á að nýju. Varaaflsvél frá Landsneti er til staðar ef á þarf að halda. 

Fjölmennt í Tollhúsinu 
Hátt í tvöhundruð manns komu í Tollhúsið síðasta sólahring. Þá mættu talsvert fleiri á þriðjudag og miðvikudag til að skila húslyklum. Ég hvet þau sem enn eiga eftir að skila lyklum að gera það.     

Frítt í Strætó fyrir ungmenni
Ánægjuleg tíðindi bárust okkur frá Strætó sem ákvað í dag, föstudag, að gefa ungmennum frí strætókort næstu þrjá mánuðina. Öll börn undir 12 ára aldri fá nú þegar frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu óháð búsetu en nú geta ungmenni á aldrinum 12-17 ára frá Grindavík fengið frítt far. Hægt er kynna sér þetta frekar á vef Strætó. 

Könnun meðal Grindvíkinga um stöðu húsnæðismála 
Mikilvæg könnun fór í loftið í vikunni sem hefur það að markmiði að fá betri yfirsýn um stöðu húsnæðismála hjá Grindvíkingum til lengri eða skemmri tíma. Ég vil hvetja öll til að taka þátt í könnuninni ef þið hafið ekki nú þegar gert það. Hér má smella til að finna könnunina: https://www.maskina.is/grindavik

Þá er vert að vekja athygli á leikjum helgarinnar fyrir þau sem hafa tök á að mæta sér til ánægju og til að hvetja okkar fólk.  Það er stór helgi framundani í körfunni fyrir okkur Grindvíkinga, en bæði karla- og kvennalið eiga leiki í bikarnum. Kvennaliðið á leik á morgun laugardaginn 20. janúar kl. 17:30 í Valsheimilinu á móti Val. Karlaliðið á leik á sunnudaginn 21. janúar í Smáranum á móti Álftanesi og hefst sá leikur klukkan 19:15. 

Að lokum minni ég á að upplýsingar um margvísleg bjargráð í aðstæðum eins og við Grindvíkingar erum að takast á við núna, má finna á Ísland.is. Þar eru einnig góð ráð varðandi það hvernig hægt er að tala við börn við núverandi aðstæður. 

Vona að þið eigið góða helgi kæru vinir, 

Með bestu kveðju,
Fannar