Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fannar Ólafsson: Illa skorinn og á þriðju klukkustund í aðgerð
Sunnudagur 8. febrúar 2004 kl. 21:48

Fannar Ólafsson: Illa skorinn og á þriðju klukkustund í aðgerð

Fannar Ólafsson leikmaður körfuknattleiksliðs Keflavíkur er illa skorinn í andliti eftir árás á skemmtun félagsins í Stapanum í gærkvöld þar sem að karla- og kvennalið félagsins hélt uppá bikarmeistaratitlana sem unnust fyrr um daginn. Fannar var fluttur á slysadeild þar sem gert var að sárum hans á þriðju klukkustund. Frá þessu er greint á vef Keflavíkur.

Fréttin á vef Keflavíkur er svohljóðandi: „Gærdagurinn var mikill gleðidagur fyrir keflvíska körfuboltamenn og alla stuðningsmenn þeirra. Tveir bikartitlar í hús og allir glaðir. Snemma um kvöldið komu leikmenn og stjórnarmenn saman í K-húsinu að Hringbraut og seinna um kvöldið var haldið á Bikargleði í Stapa. Þar var prýðileg stemming og fjöldi fólks að skemmta sér með nýkrýndum Bikarmeisturum. Því miður endaði kvöldið illa.
Fannar Ólafsson var staddur í Stapanum ásamt öðrum leikmönnum liðsins. Skömmu áður en hann hugðist halda heim á leið var hann á spjalli við félaga sína. Þá vindur sér að honum maður og hefur uppi ókvæðisorð um Fannar og Keflvíkinga. Fannar biður manninn að hætta þessu og stjakar honum frá sér. Það næsta sem gerist er að maðurinn lemur Fannar fyrirvaralaust í andlitið með bjórglasi sem hann heldur á. Bjórglasið brotnar á andliti Fannars sem vankast við höggið og missir meðvitund. Mikið blæddi úr Fannari og hann fór á sjúkrahús þar sem gert var að sárum hans í á þriðju klukkustund, enda var andlitið sundurskorið. Árásarmaðurinn var tekinn til yfirheyrslu af lögreglu. Fannar var heppinn, því augað skaddaðist ekki og slagæð á hálsi skarst ekki í sundur. Engu munaði þó að árás þessi hefði verið lífshættuleg og mesta mildi að svo varð ekki. Fannar er illa skorinn og mun verulega sjá á honum, jafnvel um ókomna tíð.
Þetta atvik er með öllu óskiljanlegt.
Heimasíðan ákvað að setja inn þessa frétt vegna þess að fiskisagan flýgur fljótt og betra er að sem réttast sé greint frá hlutunum.
Við óskum Fannari alls hins besta, en eins og áður hefur verið greint frá, þá stóð til að hann kæmi til leiks seinni hluta mánaðarins. Ekki er vitað hvort andlitsmeiðslin munu tefja endurkomu hans frekar, en fyrst um sinn verður Fannar að fara afar varlega meðan helstu sárin gróa. Hann má þó fara heim, en er undir eftirliti“, segir að lokum á vef Keflavíkur.

Myndin: Fannar (í hvítum bol) fagnar með sínum mönnum í Keflavík þegar úrslitin voru ljós í Laugardalshöllinni í gær. VF-mynd: Tobbi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024