Fannar gerir upp málin í nýju TVF
Fannar Ólafsson körfuboltakappi gerir upp málin í persónulegu og áhrifamiklu viðtali í Tímariti Víkurfrétta sem kemur út á morgun. Ráðist var á Fannar á dansleik í Stapanum í vetur þegar Keflavíkurliðið fagnaði sigri í bikarúrslitaleiknum. Í kjölfarið var málinu slegið upp í DV. „Umfjöllunin var út í hött. Þetta var alveg útúr kú hvernig þetta var sett fram í fjölmiðlum. Það var eitthvað sem við vissum að var tómt bull og gaf bara neikvæða ímynd af Reykjanesbæ og rígnum á milli Njarðvíkur og Keflavíkur. Hann hefur aldrei verið í líkingu við það sem þeir sögðu frá. Þetta hefur allt verið á góðu nótunum. Ég á fullt af góðum vinum í Njarðvíkurliðinu og þetta var út í hött," segir Fannar meðal annars í viðtalinu en hann ræðir einnig um þær alvarlegu ásakanir sem bornar voru á hendur honum og framtíðaráformin.
Í TVF er Flugvöllurinn í Kabúl heimsóttur þar sem Kristján Björgvinsson slökkviliðsmaður af Keflavíkurflugvelli starfar og Gubbi nuddari segir frá þátttöku sinni í ólympíuleikunum í Grikklandi og jeppanum sem hann fékk í jólagjöf. Sigmundur slökkviliðsstjóri segir frá baráttunni við eldinn. Fitnessdrottningin Freyja Sigurðardóttir fjallar um bannið og litið er í garðinn hjá Sigrúnu Hauksdóttur. Í TVF eru myndir frá Bergásballinu og giftingum nokkurra Suðurnesjamanna, auk þess sem Qmen er á sínum stað. Þetta og miklu, miklu meira í nýju TVF sem kemur út á morgun.