Fangi á eigin heimili
Hrefna Björk Sigvaldadóttir er ung tveggja barna móðir í Reykjanesbæ sem stendur frammi fyrir því að hafa enga framfærslu í sumar þar sem engin úrræði eru í boði fyrir atvinnulaust námsfólk. Eins og staðan er í dag nær hún rétt svo endum saman með því að hafa öll lán í frystingu „Það er bara tímabundinn plástur á sári sem mun rifna upp núna í sumar þar sem ég stend frammi fyrir því að hafa enga framfærslu,“ segir Hrefna í viðtali í prentútgáfu VF og spyr um þau úrræði sem stjórnvöld sögðust ætla bjóða fyrir námsfólk.
Veikindi sonar setja strik í reikninginn
„Sonur minn var fimm ára þegar ég ákvað að fara í háskólanám í sálfræði. Nokkrum vikum seinna komumst við að því að hann er með sjúkdóm sem kallast B-frumugalli. Það þýðir að hann er með mjög lakt ónæmiskerfi og er því mikið veikur. Ég ákvað að halda áfram námi þrátt fyrir þessi veikindi hans, aðallega vegna þess að ég vissi að ég fengi hvergi vinnu þegar það er vitað mál að ég yrði frá vinnu a.m.k. viku í hverjum mánuði,“ segir Hrefna.
Hún segist vitaskuld hafa gert sér í hugarlund að bankahrunið hefði víðtækar afleiðingar en hún hafi lifað í voninni um að hlutirnir myndu bjargast.
„En annað kom víst á daginn. Búið er að skerða nánast öll réttindi námsmanna þannig að núna stendur maður frammi fyrir því að þurfa að takast á við fjóra mánuði í sumar þar sem maður hefur engar tekjur til að framfleyta sér. Námsmenn fá ekki atvinnuleysisbætur þrátt fyrir vaxandi atvinnuleysi,“ segir Hrefa. Vegna námslánanna hafi hún haft 150
þúsund krónur á mánuði en vegna breyttra reglna sé sú innkoma ekki lengur til staðar.
Verður að lifa á loftinu
„Háskólakerfið hefur ekki heldur verið að standa sig. Ætlunin var að setja saman sumarnám þannig að námsmenn gætu notað sumarið til flýta fyrir námi sínu og einnig til þess að fá framfærslulán frá LÍN. Ég er að læra sálfræði við Háskóla Íslands og því miður verður ekkert sumarnám í boði fyrir sálfræðinemendur,“ segir Hrefna.
„Það er búið að afnema allan rétt námsmanna. Ég verð því að lifa á loftinu ef svo er hægt að segja. Ég er ein með tvö börn, 2 ára og 9 ára en maðurinn minn er einn af þeim sem leituðu erlendis eftir atvinnu. Í dag er maður rétt að ná endum saman með því að frysta öll lán, en það er bara tímabundinn plástur á sári sem mun rifna upp núna í sumar þar sem ég stend frammi fyrir því að hafa enga framfærslu. Mér finnst það alveg fáránlegt að bæjarfélagið geti bara úthýst manni og sagt að maður verði bara að redda sér. Málið er það að stjórnvöld hafa sagst ætla að koma með úrræði fyrir námsmenn en þegar ég hef haft samband við Reykjanesbæ og félagsmálaþjónustuna þá hef ég fengið þau svör að ekki séu nein úrræði fyrir þá námsmenn sem eru atvinnulausir í sumar, “ segir Hrefna.
Hún segir það skjóta skökku við að staðan skuli veri svona í ljósi þess hversu mikið fólk var hvatt til að fara í nám strax eftir Hrunið. Nú sé fólki hins vegar refsað fyrir að vera í skóla.
Fangi á eigin heimili
Eiginmaður Hrefnu hefur verið við vinnu á Grænlandi en hann er iðnaðarmaður. Eftir hrunið gjörbreyttust aðstæður iðnaðarmanna. Þeir sem héldu vinnu þurftu að taka á sig mikla kjaraskerðingu. Eftir að launin höfðu verið „strípuð” stóð hann uppi með 150 þúsund króna laun á mánuði sem er lægri upphæð en atvinnuleysisbæturnar.
Sem fyrr segir er hefur húsnæðislánið verið í frystingu. Upphaflega hljóðaði það upp á 17 milljónir króna en hefur hækkað í rúnar 30 milljónir þrátt fyrir að greitt hafi verið af því í fimm ár. Staðan er því ekki beint til þess fallin að auka bjartsýni.
„Maður getur í rauninni ekkert gert. Við erum búin að skera niður allt sem hægt er að skera niður. Í raun er maður fangi á eigin heimili því ekki getur maður losað sig við eignina,“ sagði Hrefna.
VF-mynd/elg: Hrefna Björk Sigvaldadóttir ásamt tveimur börnum sínum.