Fangelsi í Sandgerði?
Bæjaryfirvöld í Sandgerði hafa hafið undirbúning að þátttöku Sandgerðisbæjar í útboði vegna byggingar á nýju fangelsi ríkisins. Bæjarráð samþykkti þetta á fundi sínum í gær.
Í hinu nýja fangelsi er gert ráð fyrir 50 fangelsisrýmum með deild fyrir kvenfanga, samkvæmt því er fram kemur á vef Dómsmálaráðuneytisins. Undirbúningur að þessari framkvæmd hefur staðið yfir í langan tíma en á fundi ríkisstjórnarinnar hinn 30. mars sl. var samþykkt tillaga þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra að hefja þessa framkvæmd í haust.
Ríkiskaup munu sjá um útboðið fyrir hönd ríkissjóðs en miðað er við að bjóðendur byggi húsið og leigi ríkinu, samkvæmt því er fram kemur á vef ráðuneytisins. Fangelsinu er m.a. ætlað að koma í stað Hegningarhússins á Skólavörðustíg og fangelsisins í Kópavogi. Afplánunarrými í fangelsum hér á landi eru nú 149 talsins. Fyrirhugað fangelsi er liður í aðgerðum stjórnvalda til að bæta úr brýnni þörf fyrir fleiri fangelsisrými.
Bæjarráð Sandgerðis hefur falið bæjarstjóra að hefja undirbúning að þátttöku Sandgerðisbæjar í útboði vegna byggingu nýs fangelsis í samráði og samstarfi við fleiri aðila.
Loftmynd/Oddgeir Karlsson - Horft yfir Sandgerði.