Fangar augnablikið
Fangar augnablikið
-Anna Ósk Erlingsdóttir ferðast um heiminn með myndavélina.
Fyrir rúmum tveimur árum sagði Sandgerðingurinn Anna Ósk Erlingsdóttir upp góðu starfi hjá Íslenskri Erfðagreiningu og ákvað að flytjast til Gautaborgar í Svíþjóð. Áður en Anna fór gaf hún flest öll húsgögnin sín og seldi íbúðina sína. „Mörgum fannst þetta undarleg hegðun en það var eins og einhver hefði gefið mér spark í rassinn," segir Anna Ósk en hún þekkti ekki eina einustu manneskju í Gautaborg. „Ég hafði aldrei komið þangað og þetta var ágætis áskorun - ég sé alls ekki eftir því að hafa tekið þessa ákvörðun," segir Anna brosandi og hún bætir við. „ Margt hefur gerst á þessum tveimur árum og það sem skilur mest eftir sig er að ég hef kynnst nýrri
hlið á sjálfri mér. Ég hef kynnst ótrúlegu fólki, vinum sem ég mun sjálfsagt
eiga allt mitt líf. Gautaborg er ótrúlega vinaleg borg og hef ég fengið
mikinn innblástur."
Anna hefur alltaf haft mikinn áhuga á ljósmyndun og mundað myndavélina við hin ýmsu tækifæri í gegnum tíðina. Hún segist þó ekki hafa farið að taka myndir af neinni alvöru fyrr en hún fluttist til Gautaborgar. „Að byrja nýtt líf í annarri borg og í öðru landi gefur manni tækifæri á uppgötva sjálfa sig upp á nýtt. Ég kynntist einmitt mikið af lista- og tónlistarfólki, fólki sem ég hefði kannski ekki umgengist mikið heima á Íslandi," segir Anna en frá því hún flutti hefur hún ferðast mikið. „Á þessu ári hef ég verið í San Fransisco, Serbíu, Búlgaríu, Spáni, Skotlandi og að sjálfsögðu Svíþjóð og Íslandi. Fyrir áhugaljósmyndara þá er það gulls ígildi að geta ferðast svona mikið því að eftir hverja ferð þá kem ég heim með nýjar myndir."
Man ekki eftir fyrstu ljósmyndinni
En ætli Anna Ósk muni eftir fyrstu ljósmyndinni sem hún tók? „Ég verð að viðurkenna að ég man það ekki. Ég man samt sem áður eftir því að móðir mín sagði við mig þegar ég fékk mína fyrstu myndavél að ef ég ætlaði að taka myndir að þá yrði ég að vanda verkið og ekki bara taka myndir út í loftið," segir Anna og hún segir þetta gott ráð - sérstaklega þegar hún tók mest af myndunum á filmur. „Núna þegar ég tek flestar mínar myndir á stafræna myndavél þá getur maður leyft sér mun meira að prufa hitt og þetta án þess að hafa áhyggjur af kostnaði," segir Anna og hlær.
Andlitsmyndir í uppáhaldi
Svokallaðar portrett ljósmyndir eða andlitsmyndir eru í uppáhaldi hjá Önnu og henni finnst gaman að taka slíkar myndir. „Mannleg hegðun hefur alltaf heillað mig og portrett ljósmyndun er mikið tengd henni. Að fanga augnablikið hvort sem það er af kunningja eða ókunnugum er mér mjög dýrmætt," segir Anna og dregur upp eina portrett mynd sem hún tók af afgreiðslustúlku á veitingastað í San Fransisco.
Stundum skrítnar myndir
Anna Ósk segist aðspurð hafa tekið margar ljósmyndir sem séu taldar pínu skrítnar. „Sumum finnst mjög skrítið þegar ég sleppi vissum pörtum úr mynd. Til dæmis tek mynd af stúlku án augna eða mynda aðeins helminginn af andlitinu á henni. Fyrir mér er þetta ósköp eðlilegar myndir og stundum gerir það myndina sterkari fyrir vikið," segir Anna og sýnir mynd sem hún tók þegar hún var á ferðalagi í Júgóslavíu, en myndin er af stúlku sem situr í framsæti bíls og andlit stúlkunnar sést ekki.
Á Anna sér uppáhalds ljósmyndara? „Já og ég get talið upp nokkra. Til dæmis Annie
Liebowitz, Michael Thomson, Emil Schildt, Fabio Chizzola, Irving Penn og Takay."
Væri til í að mynda Hitchcock
Margir ljósmyndarar eiga sér oft draum um að fá að mynda fræga manneskju. Anna Ósk segir að ef hún mætti velja sér eina manneskju til að ljósmynda þá yrði það Hitchcock. „Hann er að vísu kominn yfir móðuna miklu því miður. En ástæðan fyrir því að ég myndi vilja taka af honum myndir er sú að hann hafði svo ótrúlegan sjarma og húmor fyrir sjálfum sér - það hefði verið erfitt að taka lélega mynd af slíku andliti," segir Anna og bætir brosandi við. „En ég ætti að velja lifandi manneskju þá yrði það Ian Mckellen, Sophia Loren eða Thor Vilhjálmsson."
Tískuljósmyndun
Ef Anna mætti ráða í hvaða geira ljósmyndunar hún myndi starfa þá yrði valið ekki erfitt að hennar sögn. „Tískubransinn - ekki spurning. Ég hef alltaf verið mikil fatafrík og finnst ekkert skemmtilegra en að fá að klæða upp og ljósmynda fólk," segir Anna en hyggur hún á ljósmyndanám í framtíðinni? „ Ég hafði hugsað mér það en þar sem líf mitt hefur tekið skarpa beygju, þá virðist sá vegur vera mun minna mikilvægur en hann var fyrir hálfu ári síðan."
Með í Metro sýningu
Fyrir rúmu ári síðan var Anna Ósk með sína fyrstu ljósmyndasýningu í Gautaborg. Sýningin gekk vel og seldi Anna 18 myndir sem þykir nokkuð gott. Þessa dagana er Anna með ljósmyndasýningu sem dagblaðið Metro í Svíþjóð stendur fyrir. „Það voru 4500 manns sem sendu inn umsókn um að taka þátt í sýningunni og 70 af þeim voru valdir til þátttöku. Myndirnar voru valdar af fjórum atvinnuljósmyndurum og nú er maður spenntur að sjá hvort maður komist á verðlaunapall," segir Anna brosandi.
Hlakkar til að mynda á Suðurnesjum
Anna segist alltaf vera með einhver ljósmyndaverkefni í gangi og hún tekur mest af sínum ljósmyndum utandyra. Anna segist vilja taka ljósmyndir á Suðurnesjum og hefur reyndar gert töluvert af því í gegnum tíðina. „Ég er náttúrulega búsett erlendis og það segir sig sjálft að ég get ekki tekið mikið af myndum heima. Hinsvegar plana ég að gera meira af því í framtíðinni. Náttúran á Íslandi er svo geggjuð og svo góður bakgrunnur fyrir tísku og portrett myndir að ég mun örugglega nýta mér það. Hlakka til þess," segir Anna og biður fyrir kveðjur heim til fjölskyldu og vina á Íslandi.
Eftir Jóhannes Kr. Kristjánsson – [email protected]
Ljósmyndir: Anna Ósk Erlingsdóttir
-Anna Ósk Erlingsdóttir ferðast um heiminn með myndavélina.
Fyrir rúmum tveimur árum sagði Sandgerðingurinn Anna Ósk Erlingsdóttir upp góðu starfi hjá Íslenskri Erfðagreiningu og ákvað að flytjast til Gautaborgar í Svíþjóð. Áður en Anna fór gaf hún flest öll húsgögnin sín og seldi íbúðina sína. „Mörgum fannst þetta undarleg hegðun en það var eins og einhver hefði gefið mér spark í rassinn," segir Anna Ósk en hún þekkti ekki eina einustu manneskju í Gautaborg. „Ég hafði aldrei komið þangað og þetta var ágætis áskorun - ég sé alls ekki eftir því að hafa tekið þessa ákvörðun," segir Anna brosandi og hún bætir við. „ Margt hefur gerst á þessum tveimur árum og það sem skilur mest eftir sig er að ég hef kynnst nýrri
hlið á sjálfri mér. Ég hef kynnst ótrúlegu fólki, vinum sem ég mun sjálfsagt
eiga allt mitt líf. Gautaborg er ótrúlega vinaleg borg og hef ég fengið
mikinn innblástur."
Anna hefur alltaf haft mikinn áhuga á ljósmyndun og mundað myndavélina við hin ýmsu tækifæri í gegnum tíðina. Hún segist þó ekki hafa farið að taka myndir af neinni alvöru fyrr en hún fluttist til Gautaborgar. „Að byrja nýtt líf í annarri borg og í öðru landi gefur manni tækifæri á uppgötva sjálfa sig upp á nýtt. Ég kynntist einmitt mikið af lista- og tónlistarfólki, fólki sem ég hefði kannski ekki umgengist mikið heima á Íslandi," segir Anna en frá því hún flutti hefur hún ferðast mikið. „Á þessu ári hef ég verið í San Fransisco, Serbíu, Búlgaríu, Spáni, Skotlandi og að sjálfsögðu Svíþjóð og Íslandi. Fyrir áhugaljósmyndara þá er það gulls ígildi að geta ferðast svona mikið því að eftir hverja ferð þá kem ég heim með nýjar myndir."
Man ekki eftir fyrstu ljósmyndinni
En ætli Anna Ósk muni eftir fyrstu ljósmyndinni sem hún tók? „Ég verð að viðurkenna að ég man það ekki. Ég man samt sem áður eftir því að móðir mín sagði við mig þegar ég fékk mína fyrstu myndavél að ef ég ætlaði að taka myndir að þá yrði ég að vanda verkið og ekki bara taka myndir út í loftið," segir Anna og hún segir þetta gott ráð - sérstaklega þegar hún tók mest af myndunum á filmur. „Núna þegar ég tek flestar mínar myndir á stafræna myndavél þá getur maður leyft sér mun meira að prufa hitt og þetta án þess að hafa áhyggjur af kostnaði," segir Anna og hlær.
Andlitsmyndir í uppáhaldi
Svokallaðar portrett ljósmyndir eða andlitsmyndir eru í uppáhaldi hjá Önnu og henni finnst gaman að taka slíkar myndir. „Mannleg hegðun hefur alltaf heillað mig og portrett ljósmyndun er mikið tengd henni. Að fanga augnablikið hvort sem það er af kunningja eða ókunnugum er mér mjög dýrmætt," segir Anna og dregur upp eina portrett mynd sem hún tók af afgreiðslustúlku á veitingastað í San Fransisco.
Stundum skrítnar myndir
Anna Ósk segist aðspurð hafa tekið margar ljósmyndir sem séu taldar pínu skrítnar. „Sumum finnst mjög skrítið þegar ég sleppi vissum pörtum úr mynd. Til dæmis tek mynd af stúlku án augna eða mynda aðeins helminginn af andlitinu á henni. Fyrir mér er þetta ósköp eðlilegar myndir og stundum gerir það myndina sterkari fyrir vikið," segir Anna og sýnir mynd sem hún tók þegar hún var á ferðalagi í Júgóslavíu, en myndin er af stúlku sem situr í framsæti bíls og andlit stúlkunnar sést ekki.
Á Anna sér uppáhalds ljósmyndara? „Já og ég get talið upp nokkra. Til dæmis Annie
Liebowitz, Michael Thomson, Emil Schildt, Fabio Chizzola, Irving Penn og Takay."
Væri til í að mynda Hitchcock
Margir ljósmyndarar eiga sér oft draum um að fá að mynda fræga manneskju. Anna Ósk segir að ef hún mætti velja sér eina manneskju til að ljósmynda þá yrði það Hitchcock. „Hann er að vísu kominn yfir móðuna miklu því miður. En ástæðan fyrir því að ég myndi vilja taka af honum myndir er sú að hann hafði svo ótrúlegan sjarma og húmor fyrir sjálfum sér - það hefði verið erfitt að taka lélega mynd af slíku andliti," segir Anna og bætir brosandi við. „En ég ætti að velja lifandi manneskju þá yrði það Ian Mckellen, Sophia Loren eða Thor Vilhjálmsson."
Tískuljósmyndun
Ef Anna mætti ráða í hvaða geira ljósmyndunar hún myndi starfa þá yrði valið ekki erfitt að hennar sögn. „Tískubransinn - ekki spurning. Ég hef alltaf verið mikil fatafrík og finnst ekkert skemmtilegra en að fá að klæða upp og ljósmynda fólk," segir Anna en hyggur hún á ljósmyndanám í framtíðinni? „ Ég hafði hugsað mér það en þar sem líf mitt hefur tekið skarpa beygju, þá virðist sá vegur vera mun minna mikilvægur en hann var fyrir hálfu ári síðan."
Með í Metro sýningu
Fyrir rúmu ári síðan var Anna Ósk með sína fyrstu ljósmyndasýningu í Gautaborg. Sýningin gekk vel og seldi Anna 18 myndir sem þykir nokkuð gott. Þessa dagana er Anna með ljósmyndasýningu sem dagblaðið Metro í Svíþjóð stendur fyrir. „Það voru 4500 manns sem sendu inn umsókn um að taka þátt í sýningunni og 70 af þeim voru valdir til þátttöku. Myndirnar voru valdar af fjórum atvinnuljósmyndurum og nú er maður spenntur að sjá hvort maður komist á verðlaunapall," segir Anna brosandi.
Hlakkar til að mynda á Suðurnesjum
Anna segist alltaf vera með einhver ljósmyndaverkefni í gangi og hún tekur mest af sínum ljósmyndum utandyra. Anna segist vilja taka ljósmyndir á Suðurnesjum og hefur reyndar gert töluvert af því í gegnum tíðina. „Ég er náttúrulega búsett erlendis og það segir sig sjálft að ég get ekki tekið mikið af myndum heima. Hinsvegar plana ég að gera meira af því í framtíðinni. Náttúran á Íslandi er svo geggjuð og svo góður bakgrunnur fyrir tísku og portrett myndir að ég mun örugglega nýta mér það. Hlakka til þess," segir Anna og biður fyrir kveðjur heim til fjölskyldu og vina á Íslandi.
Eftir Jóhannes Kr. Kristjánsson – [email protected]
Ljósmyndir: Anna Ósk Erlingsdóttir