Fallist á Suðurstrandarveg með skilyrðum
Úrskurður Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum lagningar Suðurstrandarvegar milli Grindavíkur og Þorlákshafnar hefur verið lagður fram. Lagst er gegn lagningu Suðurstrandarvegar samkvæmt rauðri veglínu frá Ísólfsskála að eystri mörkum Ögmundarhrauns. Fallist er á lagningu Suðurstrandarvegar frá Grindavík að Þorlákshöfn, samkvæmt gulri veglínu frá Ísólfsskála að eystri mörkum Krýsuvíkurheiði með skilyrðum. Jafnframt er fallist á lagningu Suðurstrandarvegar með breytingum á veglínu sunnan Skála-Mælifells um Moshóla að Skalla, austan Sláttudals og norðan Herdísarvíkur.
Meðfylgjandi er lokakafli skýrslu Skipulagsstofnunar:
5.5 NIÐURSTAÐA
Fyrirhugaður 58 km langur nýr Suðurstrandarvegur ásamt um 1,5 milljón m³ efnistöku er viðamikil framkvæmd sem mun liggja um lítt raskað landsvæði í Grindavík, Hafnarfirði og Sveitarfélaginu Ölfusi. Á um 30 km kafla frá Festarfjalli að Hlíðarvatni mun vegurinn liggja að mestum hluta um eldhraun sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og að stórum hluta um friðlýst svæði. Skipulagsstofnun telur að helstu umhverfisáhrif fyrirhugaðs vegar lúti að samgöngum, landslagi og jarðmyndunum. Nýr Suðurstrandarvegur mun auðvelda samgöngur um svæðið og er líklegur til að hafa jákvæð áhrif á samgöngur og byggða- og atvinnumál í Grindavík og Þorlákshöfn. Skipulagsstofnun telur ljóst að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar veglagningar verði á landslag og jarðmyndanir á kaflanum frá Festarfjalli að Hlíðarvatni. Samkvæmt framlögðum gögnum liggur fyrir að landslag á svæðinu er sérstætt og stórbrotið og ber yfirbragð lítt raskaðs og óbyggðs svæðis og gildi þess til útivistar er hátt. Að mati stofnunarinnar ber að velja veglínu og standa að öðru leyti að veglagningu og efnistöku með þeim hætti að sérstaða og verndargildi svæðisins rýrni sem allra minnst. Í því sambandi telur Skipulagsstofnun mikilvægt að sem stærstum landslagsheildum verði haldið óröskuðum. Jafnframt ber að horfa til mismunandi ferðamáta, bæði til þeirra sem kjósa að aka eftir veginum án þess að staldra lengi við og þeirra sem kjósa að dvelja lengur á svæðinu og njóta kyrrðar, fjarri umferð sem óhjákvæmilega eykst verulega miðað við núverandi aðstæður. Á um 15 km kafla innan fyrrgreinds svæðis, frá Ísólfsskála í vestri og austur fyrir Krýsuvíkurheiði, eru lagðir fram tveir kostir á veglínum; veglína sem auðkennd er með gulum lit á kortum og veglína auðkennd með rauðum lit.
5.5.1 Áhrif veglagningar samkvæmt rauðri veglínu
Stöð 8.500 við Ísólfsskála að stöð 24.000, austan Krýsuvíkurheiði. Á þessum kafla liggur rauð veglína mun sunnar og nær ströndinni en gul veglína og mun þannig skipta upp víðáttumiklum, óröskuðum landslagsheildum, sem einkennast af úfnum og mosavöxnum hraunbreiðum á láglendi, að mun meira leyti og á mun meira áberandi hátt en gul veglína. Þó að fyrir liggi að núverandi vegur hafi þegar skipt og raskað stærri landslagsheildum, telur Skipulagsstofnun að þetta svæði njóti hvað mestrar sérstöðu á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði innan stærra svæðis sem nái frá Festarfjalli austur að Hlíðarvatni. Leggja ber mikla áherslu á, að mati stofnunarinnar, að sem stærst svæði verði ósnortin á fyrrgreindum kafla jafnframt því sem til staðar verði stór svæði til útivistar við ströndina, fjarri fyrirhugaðri veglínu. Skipulagsstofnun telur ekki líklegt að vandamál vegna snjósöfnunar verði meiri á gulri veglínu en rauðri þar sem lítill munur er á hæðarlegu veglínanna yfir sjó. Að mati stofnunarinnar er óvíst hvort að rauð veglína nær ströndinni þjóni betur öryggishlutverki, verði skipsskaðar undan ströndu, þar sem enn verður að fara á tiltölulega löngum köflum um úfin og ógreiðfær hraun til þess að komast að ströndinni. Ennfremur telur Skipulagsstofnun að með veglagningu samkvæmt rauðri veglínu á ofangreindum kafla verði ekki bætt aðgengi ferðamanna að vinsælum viðkomustöðum þar sem ekki sé gert ráð fyrir veglagningu að þeim í fyrirhuguðum framkvæmdum. Skipulagsstofnun telur að þar sem vegur samkvæmt rauðri veglínu muni á þessum kafla liggja að stórum hluta til um friðlýst svæði, um jarðmyndanir sem eru sérstæðar og raska verulega landslagsheildum og með hliðsjón af óafturkræfni fyrirhugaðra framkvæmda og umfangi, muni veglagning, samkvæmt rauðri veglínu á kaflanum frá stöð 8.500 við Ísólfsskála að stöð 17.000 við austurmörk Ögmundarhrauns, hafa veruleg og óafturkræf umhverfisáhrif í för með sér sem ekki verður hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.
Skipulagsstofnun telur að áhrif Suðurstrandarvegar samkvæmt rauðri veglínu yfir Krýsuvíkurheiði frá stöð 17.000 að stöð 24.000 á gróður, fugla, menningarminjar, jarðmyndanir verði ekki veruleg en telur að töluverðar ásýndarbreytingar verði á fyrrnefndum svæði með tilkomu vegarins.
5.5.2 Áhrif veglagningar samkvæmt gulri veglínu
Stöð 8.500 við Ísólfsskála að stöð 24.000, austan Krýsuvíkurheiði. Skipulagsstofnun telur að nýr Suðurstrandarvegur samkvæmt gulri veglínu muni hafa mikil og óafturkræf áhrif á víðáttumikil, úfin og mosagróin hraunasvæði frá stöð 8.500 við Ísólfsskála að stöð 17.000 við austurmörk Ögmundarhrauns og að ekki verði komist hjá miklum breytingum á landslagi á ofangreindu svæði. Á þessum kafla hefur núverandi vegur þegar raskað stærri landslagsheildum, eldstöðvum norðan hans og hraunum frá þeim sunnan hans. Skipulagsstofnun telur að með veglagningu samkvæmt gulri veglínu verði þó enn til staðar stórar, óraskaðar landslagsheildir sem einkennast af úfnum hraunbreiðum á þessu svæði og stór svæði sem nýta megi til útivistar í nokkurri fjarlægð frá umferð á veginum. Skipulagsstofnun telur að með breytingum á gulri veglínu í vegstæði blárrar veglínu frá stöð 11.500 sunnan Skála-Mælifells um Moshóla að stöð 14.000 við Skalla, sem fjallað er um í köflum 4.1 og 5.1 í þessum úrskurði, megi draga mikið úr neikvæðum áhrifum veglagningar á jarðmyndanir og landslag, þ.a. áhrif hennar á fyrrnefnda umhverfisþætti verði ásættanlegri. Skipulagsstofnun telur að veglagning samkvæmt gulri veglínu, með eða án fyrrnefndra breytinga frá stöð 11.500-14.000 sunnan Skála-Mælifells um Moshóla að Skalla, muni hafa jákvæð áhrif á samgöngur á svæðinu og að umferðaröryggi verði vel ásættanlegt. Skipulagsstofnun telur að áhrif á gróður frá stöð 8.500 við Ísólfsskála að stöð 17.000 við eystri mörk Ögmundarhrauns verði töluverð þar sem nýr vegur muni liggja um mosavaxin hraun en að áhrif á fugla og menningarminjar verði ekki veruleg.
Skipulagsstofnun telur að áhrif nýs Suðurstrandarvegar yfir Krýsuvíkurheiði frá stöð 17.000 að stöð 24.000 á jarðmyndanir, gróður, fugla og menningarminjar verði ekki veruleg, en telur að töluverðar ásýndarbreytingar verði á fyrrnefndum svæði með tilkomu vegarins.
Skipulagsstofnun telur að áhrif efnistöku á ofangreindum kafla frá Ísólfsskála austur yfir Krýsuvíkurheiði verði nokkur þar sem um sé ræða allt að 300.000 m3 efnistökumagn úr 4 nýjum námum en að mati stofnunarinnar munu þær aðgerðir sem fjallað er um í köflum 3.2, 4.1 og 4.3.1 í þessum úrskurði draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum efnistöku á jarðmyndanir, landslag og gróður. Jafnframt telur stofnunin að þær mótvægisaðgerðir sem Fornleifavernd ríkisins hefur lagt til í kafla 4.3 í þessum úrskurði geri það að verkum að áhrif efnistöku á menningarminjar verði ekki veruleg.
5.5.3 Áhrif veglagningar þar sem ein veglína er kynnt
Stöð 0 við Grindavíkurveg að stöð 8. 500 við Ísólfsskála. Á þessum kafla nýs Suðurstrandarvegar telur Skipulagsstofnun að áhrif veglagningar á landslag og jarðmyndanir verði nokkur þar sem nýr vegur verður lagður um Sundhnúkahraun. Að mati stofnunarinnar verða áhrifin töluverð og óafturkræf á Borgarhraun en á þessum kafla telur Skipulagsstofnun að ekki sé svigrúm til færslu veglínu. Stofnunin telur líklegt að með færslu vegstæðis að norðurmörkum kríuvarps við Hraun og þeim mótvægisaðgerðum sem fram koma í köflum 4.3.2 og 5.3.2 í þessum úrskurði verði áhrif á kríuvarpið lágmörkuð. Skipulagsstofnun telur að samkvæmt framlögðum gögnum Vegagerðarinnar verði tryggt að námurétthafar í Hraunsnámum nr. 1 og 2 hafi áfram aðgang að efnistöku úr námunum. Að mati stofnunarinnar verða áhrif veglagningar á ofangreindum kafla á menningarminjar ásættanleg að teknu tilliti til fyrirhugaðra mótvægisaðgerða sem gerð er grein fyrir í kafla 4.3 í þessum úrskurði. Jafnframt er það mat stofnunarinnar að svigrúm sé til að tryggja að hljóðstig verði innan lögbundinna marka, með tilkomu Suðurstrandarvegar, í fyrirhugaðri íbúðarbyggð í Grindavík og Þorlákshöfn.
Stöð 24.000, austan Krýsuvíkurheiði að stöð 36.500, austan Herdísarvíkur. Skipulagsstofnun telur að nýr Suðurstrandarvegur á þessum kafla, sem er að stórum hluta innan friðlýstra svæða, muni óhjákvæmilega valda óafturkræfu raski á hraunmyndunum og hafa miklar breytingar á landslagi í för með sér. Auk þess mun mosa- og kjarrgróður skerðast sem nemur vegstæði og öryggissvæði og ekki verður um eiginlega endurheimt sambærilegs gróðurs að ræða. Stofnunin leggur áherslu á að veglínu verði valin staður sunnan Eldborga í samráði við Umhverfisstofnun með þeim hætti að hann skerði sem allra minnst hrauntraðir sem eru fágætar á heimshlutavísu. Skipulagsstofnun telur að með þeim breytingum á veglínu, miðað við þá legu vegar sem kynnt er í matsskýrslu og sem gerð er grein fyrir í kafla 4.1 í þessum úrskurði, frá stöð 29.000 að stöð 31.500 austan Sláttudals og frá stöð 34.400-35.700 norðan Herdísarvíkur, sé verulega dregið úr heildaráhrifum veglagningar á jarðmyndanir og landslag á vegakaflanum frá Krýsuvíkurheiði austur fyrir Herdísarvík. Núverandi vegstæði verði nýtt að nokkru leyti og vegur muni liggja um svæði sem er nú þegar raskað. Stofnunin telur að áhrif veglagningar á jarðmyndanir, landslag, landslagsheildir og gróður verði mikil en ásættanleg, ekki síst í ljósi þess að veglínan sker ekki hraun sem mynda landslagsheildir á láglendi að eins miklu leyti og vestar á svæðinu. Skipulagsstofnun telur að við færslu vegar suður fyrir námu nr. 10 í Stakkavíkurhrauni séu ekki lengur forsendur fyrir hendi til efnistöku úr námunni. Að mati stofnunarinnar má draga verulega úr áhrifum efnistöku á jarðmyndanir, landslag og gróður af námuvinnslu úr námum 11 og 12 við Hlíðarvatn með því að miða efnistökumagn við frágang þessara gömlu námusvæða.
Skipulagsstofnun fellst á þau rök Vegagerðarinnar að líklegt sé að truflun af mannaferðum við Eldborgir við núverandi aðstæður geri arnarvarp í gömlu arnarsetri sunnan Eldborga ófýsilegt og að veglínu um svæðið verði vart hnikað það mikið að arnarsetrið nýtist til varps. Skipulagsstofnun telur að efnistaka úr námu nr. 12 við Hlíðarvatn sé ásættanleg með tilliti til hugsanlegs varps arnar í gömlu setri ofan námunnar, þar sem fyrirhugað sé tiltölulega lítið efnismagn og truflun vegna framkvæmda tímabundin. Skipulagsstofnun telur að áhrif á útivist og ferðamennsku á fyrrnefndu svæði verði nokkur en að ekki verði um veruleg áhrif á menningarminjar vegna veglagningar á fyrrnefndum kafla.
Stöð 36.500 vestan Herdísarvíkur að stöð 58.000 við Þorlákshafnarveg. Skipulagsstofnun telur að áhrif á jarðmyndanir og landslag vegna veglagningar á ofangreindum kafla verði nokkur þar sem um er að ræða nýlagningu vegar á um 20 km kafla. Jafnframt telur Skipulagsstofnun að ekki verði komist hjá því að allt að 400.000 m3 efnistaka á alls 7 námasvæðum muni hafa nokkur áhrif á jarðmyndanir, landslag og gróður. Að mati stofnunarinnar verða áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á þessum vegarkafla á fuglalíf við Hlíðarvatn og menningarminjar ekki veruleg með tilliti til kynntra mótvægisaðgerða.
5.5.4 Skipulag og leyfi
Varðandi stöðu skipulags og leyfisveitinga bendir Skipulagsstofnun á eftirfarandi:
1. Veglagning og efnistaka eru háð framkvæmdaleyfi Grindavíkurbæjar, Hafnarfjarðabæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.
2. Gera þarf breytingu á gildandi Aðalskipulagi Grindavíkur 2000-2020 vegna breyttrar legu Suðurstrandarvegar og vegna efnistökusvæða í Leirdal (nr. 4), við Latshóla (nr. 5) og við Geitahlíð (nr. 9).
3. Þar sem ekkert skipulag nær til þess hluta framkvæmdanna sem fellur innan Krýsuvíkur þarf Hafnarfjarðarbær að sækja um meðmæli Skipulagsstofnunar skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga áður en unnt er að veita framkvæmdaleyfi.
4. Gera þarf breytingu á samþykktu Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Ölfuss 2002-2014 ef gerð verður breyting á veglínu austan Sláttudals og norðan Herdísarvíkur miðað við aðalskipulagið. Gera þarf breytingar á aðalskipulaginu vegna efnistökusvæða nr. 11 og 12 við Hlíðarvatn.
5. Leita þarf leyfis Umhverfisstofnunar vegna framkvæmda innan Reykjanesfólkvangs og Friðlands í Herdísarvík.
6. Leita þarf umsagnar Umhverfisstofnunar áður en veitt er framkvæmdaleyfi til framkvæmda sem hafa í för með sér röskun jarðmyndana og vistkerfa sem falla undir 37. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd.
7. Ýmsir þættir fyrirhugaðra framkvæmda eru háðir starfsleyfi Heilbrigðisnefnda sveitarfélaga á framkvæmdasvæðinu skv. fylgiskjali 2 við reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Áður en framkvæmdaleyfi er gefið út þarf Vegagerðin að leggja fram áætlun um efnistöku í samræmi við 48. gr. laga um náttúruvernd.
Á grundvelli gagna framkvæmdaraðila lögðum fram við athugun, umsagna, athugasemda og svara framkvæmdaraðila við þeim er það niðurstaða Skipulagsstofnunar að Suðurstrandarvegur frá Grindavík að Þorlákshöfn, samkvæmt gulri veglínu milli stöðva 8.500 við Ísólfsskála og 24.000 við eystri mörk Krýsuvíkurheiði, muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif eins og hann er lagður fram í matsskýrslu. Jafnframt er það niðurstaða stofnunarinnar að Suðurstrandarvegur með breytingum á veglínu milli stöðva 11.500 sunnan Skála-Mælifells um Moshóla að stöð 14.000 við Skalla, 29.000-31.500 austan Sláttudals og 34.400-35.700 norðan Herdísarvíkur, sem fjallað er um í köflum 4.1 og 5.1 í þessum úrskurði, muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Niðurstaða Skipulagsstofnunar byggir á því að fylgt verði þeim mótvægisaðgerðum sem kynntar eru í 4. og 5. kafla í þessum úrskurði og að uppfyllt verði þau skilyrði sem gerð er grein fyrir í 6. kafla þessa úrskurðar
Skipulagsstofnun telur að Suðurstrandarvegur samkvæmt rauðri veglínu frá stöð 8.500 við Ísólfsskála að stöð 17.000, við eystri mörk Ögmundarhrauns, muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.
6 ÚRSKURÐARORÐ
Í samræmi við 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 hefur Skipulagsstofnun farið yfir þau gögn sem lögð voru fram samkvæmt 10. gr. sömu laga af hálfu framkvæmdaraðila við tilkynningu ásamt umsögnum, athugasemdum og svörum framkvæmdaraðila við þeim.
Með vísun til niðurstöðu Skipulagsstofnunar sem gerð er grein fyrir í 5. kafla þessa úrskurðar er lagst gegn lagningu Suðurstrandarvegar samkvæmt rauðri veglínu frá Ísólfsskála að eystri mörkum Ögmundarhrauns. Fallist er á lagningu Suðurstrandarvegar frá Grindavík að Þorlákshöfn, samkvæmt gulri veglínu frá Ísólfsskála að eystri mörkum Krýsuvíkurheiði. Jafnframt er fallist á lagningu Suðurstrandarvegar með breytingum á veglínu sunnan Skála-Mælifells um Moshóla að Skalla, austan Sláttudals og norðan Herdísarvíkur. Fyrirhugaðar framkvæmdir eru háðar eftirfarandi skilyrðum:
1. Vegagerðin þarf að hafa samráð við Umhverfisstofnun um endanlega veglínu Suðurstrandarvegar sunnan Skála-Mælifells um Moshóla að Skalla, austan Sláttudals og norðan Herdísarvíkur. Jafnframt þarf Vegagerðin að hafa samráð við Umhverfisstofnun um endanlega veglínu sunnan Eldborga og fyrirkomulag við veglagningu yfir hrauntraðir.
2. Vegagerðin þarf að skilgreina öryggis- og framkvæmdasvæði fyrirhugaðs vegar eins þröngt og kostur er, einkum þar sem hann liggur um úfin hraun í samráði við Umhverfisstofnun.
3. Vegagerðin þarf að miða efnistökumagn úr námum nr. 11 og 12 við Hlíðarvatn við frágang námanna.
4. Vegagerðin þar að fara að tillögum Fornleifaverndar ríkisins að mótvægisaðgerðum vegna áhrifa á fundarstað fornleifa.
7 KÆRUFRESTUR
Samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000 má kæra úrskurð Skipulagsstofnunar til umhverfisráðherra. Kærufrestur er til 2. júlí 2004.
Reykjavík, 26. maí 2004.
Hólmfríður Sigurðardóttir
Jakob Gunnarsson