Fálki sat í Stekkjar-staur!
Fálki hefur af og til gert vart við sig í Njarðvík á síðustu misserum. Af og til höfum við flutt fréttir af fálka sem hefur verið við tjarnirnar á Fitjum og tvívegis hafa ljósmyndarar Víkurfrétta myndað þessa tignarlegu fugla á Fitjum. Í gær sást til fálka í ljósastaur í Innri Njarðvík. Þegar ljósmyndari Víkurfrétta nálgaðist fuglinn hvarf hann á braut. Í dag fengu Víkurfréttir síðan hingingu um að fálki sæti uppi í staur á Fitjum.Fálkinn var þar í næsta nágrenni tjarnanna og sat í staur við götuna Stekk. Þar með var fálkinn í Stekkjar-staur í orðsins fyllstu merkingu. Ekki náðust myndir af fulginum í dag, frekar en í gær. Við hvetjum fólk til að standa með okkur vaktina og láta okkur vita af ferðum fálkans. Meðfylgjandi er mynd af fálka sem tekin var af ljósmyndara Víkurfrétta á Fitjum á síðasta ári.