Faglærðum leikskólakennurum fjölgar töluvert á Suðurnesjum
Skólaskýrsla fyrir árið 2011 kom út á dögunum en þar eru birtar tölulegar upplýsingar um skólamál á Íslandi. Í skýrslunni er bæði fjallað um leikskóla og grunnskóla og er þar að finna ýmsar magntölur yfir nemendur, skóla, starfsfólk og rekstrarkostnað. Í skýrslunni kemur margt forvitnilegt í ljós og Suðurnesin standa vel að vígi.
Þegar horft er til fjölda starfsmanna við uppeldis- og menntunarstörf á leikskólum á Suðurnesjum þá hefur starfsmönnum fjölgað um 52 á milli áranna 2006 og 2010. Menntuðum leikskólakennurum hefur fjölgað um 34, eða frá 79 í 113 og jafnframt hefur þá ófaglærðum starfsmönnum fækkað um 4 á þessu tímabili. Starfsmenn með annars konar uppeldismenntun voru 27 árið 2010 en einungis 5 árið 2006, þar er því um töluverða breytingu að ræða. Til samanburðar má nefna það að á Vestfjörðum fækkaði faglærðum leikskólakennurum um 1 á þessu sama tímabili. Í Reykjavík fækkaði lærðum leikskólakennurum um 10.
Á árunum 2006-2010 fjölgaði leikskólabörnum á Suðurnesjum um 247 og það sem ennfremur vekur athygli er að frá árinu 1998 hefur börnum á leikskólaaldri fjölgað um 60%, eða frá 837 börnum árið 1998, til 1.340 barna árið 2010. Hvergi á landinu er aukningin sambærileg nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem leikskólabörnum fjölgaði um 65% frá 1998.
Skýrsluna vann Valgerður Freyja Ágústsdóttir, sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga.