Fært úr stað
„Ég var í fyrstu ekki hrifin af salnum, hann virkaði svo opinn, hrár og óreglulegur. Nú þegar ég er búin að vinna með honum að gerð sýningarinnar hef ég tekið hann í sátt og líkar vel að sýna hér,“ sagði Ólöf Helga Guðmundsdóttir sem opnaði í dag sýninguna Fært úr stað í Saltfisksetri Íslands í Grindavík, ásamt Maríu Jónsdóttur.
Þær stöllur eru skólasystur úr Listaháskóla Íslands og þrátt fyrir að sýna saman í setrinu koma þær úr ólíkum deildum. María útskrifaðist úr textíldeild meðan Ólöf Helga útskrifaðist úr skúlptúrdeild.
Það er enn sérstæðara að María valdi að sýna verk unnið úr gleri, steini og málmi í stað þeirra textílverka sem hún er sérhæfð í. Ólöf Helga opnaði fyrir sýningagestum nýjan heim þar sem ekki er allt eins og það sýnist. Gömul skrifborð nemenda úr Menntaskólanum í Reykjavík eru gædd nýju hlutverki. Borðin voru ýmist á skautum, hjólum eða með hníf í stólbakinu.
Það var leikmynd Ólafar Helgu sem stóð upp úr. Þar hefði mátt standa „Gjörið svo vel að snerta,“ því í hverjum króki og kima mátti sjá eitthvað nýtt og spennandi. Jafnvel dularfullt ef vel var leitað.
Vf-mynd/Margrét