Föstudagur 6. mars 2015 kl. 07:00
Færri atvinnulausir en fleiri í neyð
Tugir kláruðu bótarétt sinn um áramótin og fá ekki félaglega aðstoð.
Atvinnulausum á Suðurnesjum hefur fækkað um 186 á milli áranna 2013 og 2014. 655 voru atvinnulausir í janúar, 290 karlmenn og 365 konur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Vinnumálastofnunar. Hlutfallslegt atvinnuleysi á Suðurnesjum í janúar var alls 5,8%; 4,8% karla og 7,1% kvenna. Fjöldi atvinnulausra í lok janúarmánaðar voru 43 í Grindavík, 466 í Reykjanesbæ, 77 í Sandgerði, 43 í Garði og 26 í Vogum. 3,6% atvinnuleysi var á landinu á sama tíma.
Guðbrandur Einarsson, bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja, segir fækkun meðal atvinnulausra vera í samræmi við það að þeim sem fá félagslega aðstoð hjá Reykjanesbæ fækki einnig. „Einnig hefur atvinnulausum félagsmönnum VS fækkað verulega og í dag eru innan við 40 félagsmenn VS á atvinnuleysisskrá.“
Ótrúleg grimmd
„Það voru þónokkrir sem sem kláruðu bótaréttinn sinn um áramótin vegna lagabreytinga. Þetta er fyrsti hópurinn sem klárar bótarétt sinn eftir að réttur var skertur, bótarétturinn var á lengdur á tímabilinu eftir hrun. Margt af þessu fólki telst hvergi og fær ekki félagslega aðstoð frá sveitarfélaginu sínu vegna þess að maki þess er yfir hámarkskvarða í tekjum. Þetta er ótrúleg grimmd og kerfið hættir að leita að vinnu fyrir fólk,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður VSKF. Fólk sé orðið ófeimnara við að leita sér fjárhagsaðstoðar en áður. „Það þykir ekki eins mikil skömm að standa í röð til þess og ég held að það sé mjög hæpið að fólk geri slíkt að ástæðulausu til að fá mjólkurpott, brauð og bjúgupakka, sem er nálægt því að renna út á tíma. Fólk er opnara með neyð sína. Atvinnuleysið er örugglega meira en tölur sýna og þær segja ekkert til um félagslega stöðu fólks. Það er því ekki ólíklegt að þessi hópur, sem fær hvergi höfði sínu að halla, leiti til kirknanna, Rauða krossins og Fjölskylduhjálpar.“
Fleira yngra fólk leitar aðstoðar
Þórunn Íris Þórisdóttir, rekstrarstjóri Keflavíkurkirkju sem hefur umsjón með Velferðarsjóði Suðurnesja, segir hvorki hafa fækkað né fjölgað í hópnum sem leiti til hennar. „Aldursbilið er orðið breiðara, hópurinn margbrotinn og meira af ungu fólki á menntaskólaaldri sem er í vandræðum.“ Unga fólkið sem leiti til hennar geri sér stundum ekki grein fyrir því að ýmislegt er í boði til að efla sjálfsmynd þess til að breyta stöðunni. „Margir sem koma hingað þurfa fyrst og fremst á hvatningu og stuðningi að halda sem þeir fá ekki heima. Það kemur jafnvel stolt hingað til að segja frá góðum árangri sem það hefur náð í námi eftir að hafa þegið styrk úr Velferðarsjóði fyrir skólagjöldum, bókakostnaði og skólamat.“