Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Færður frá borði í Skotlandi af öryggisástæðum
Þriðjudagur 4. mars 2008 kl. 14:32

Færður frá borði í Skotlandi af öryggisástæðum

Farþegi í flugi Iceland Express á leið frá Barcelona til Íslands í gærkvöldi var fjarlægður með lögregluvaldi úr vélinni eftir að vélin hafði millilent á flugvelli í Skotlandi. Fréttavefurinn Vísir.is hefur eftir Matthíasi Imsland, forstjóra Iceland Express, að hann hafi verið fjarlægður af öryggisásæðum þar sem hann hafi látið ýmis orð falla sem hafi gefið ástæðu til aðgerða.

Annar farþegi í vélinni hafði samband við Víkurfréttir og lýsti atburðarásinni þannig að allt hafi virst með felldu þegar farið var í loftið, en svo hafi borist tilkynning um að millilenda þurfi í Skotlandi til að taka meira eldsneyti sökum mikils mótvinds.

Þegar vélin hafi svo á flugvellinum í Skotlandi hafi þar beðið margir lögreglubílar með blikkandi ljós svo að farþegum hafi brugðið í brún. „Svo komu þeir inn bæði að framan og að aftan og fjarlægðu manninn. Það voru engin læti eða slagsmál við það,“ segir heimildarmaður Víkurfrétta, en hann taldi víst að maðurinn væri íslenskur að uppruna.

Hann bætti því við að lögregla hafi rætt við fleiri farþega en enginn annar hafi farið frá borði.

Hann vildi einnig koma því á framfæri að áhöfnin hafi staðið sig mjög vel og haldið öllum farþegum rólegum. Þó hafi verið einkennilegt að engar útskýringar hafi borist farþegum og jafnvel í morgun hafi fulltrúi Iceland Express ekki viljað svara fyrirspurn hans.

Forvígismenn flugfélagins munu nú, að því er Matthías Imsland segir á Vísi, skoða skýrslu áhafnar áður en ákvörðun verður tekin um hvort málið muni fara lengra.

Mynd úr safni Víkurfrétta - VF-mynd/Hilmar Bragi
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024