Færðu Þekkingarsetrinu málverk af Sandgerðistjörn
5. bekkur í Sandgerðisskóla færði á dögunum Þekkingarsetri Suðurnesja glæsilegt málverk af Sandgerðistjörn sem nemendur unnu í tengslum við tjarnarverkefni sem er samvinnuverkefni Sandgerðisskóla og Þekkingarsetursins. Verkefnið er hluti af samstarfsverkefni Sandgerðisbæjar með finnska sveitarfélaginu Mänttä-Vilppula, sem er styrkt af Comenius Regio hluta Menntaáætlunar ESB.
Markmið verkefnisins er að tengja betur saman skóla og stofnanir sveitarfélaganna með sérstaka áherslu á náttúrufræði og listir. Grunnskólinn og leikskólinn í Sandgerði, Rannsóknasetur HÍ á Suðurnesjum, Náttúrustofa Suðvesturlands og Listatorg eru þátttakendur í verkefninu auk Þekkingarsetursins.
Krakkarnir hafa undanfarnar vikur fræðst um dýralíf tjarnarinnar, farið var í tjarnarveiðiferð með sérfræðingum Þekkingarsetursins og dýrin sett í búr á efri hæð setursins þar sem m.a er hægt að sjá vatnabobba, kringlubobba, tjarnatítur, hornsíli og brunnklukkur. Krakkarnir hafa unnið frábært starf og hvetjum við alla til að koma við í Þekkingarsetrið og líta listaverkið augum.
Þekkingarsetur Suðurnesja býður einnig upp á þrjár skemmtilegar og fræðandi sýningar þar sem gestir eiga kost á að upplifa hluta af náttúru Íslands í návígi. Safn ýmissa lífvera, jurta og steina auk lifandi dýra í sjóbúrum. Gestir geta farið í veiðiferð í fjöruna eða tjarnirnar og svo skoðað veiðifenginn nánar undir víðsjá, tekið þátt í skemmtilegum ratleik, fræðst um sögu Sandgerðis, skoðað sýningu Heimskautin Heilla sem er um líf franska heimskautafarans Jean-Baptiste Charcot sem fórst með skipi sínu Pourquoi-pas? og áhöfn við Mýrar 1936 eða leitað að þangálfunum sem hafa tekið sér búfestu á neðrihæð hússins.
Hér má sjá málverkið.