Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Færði Útskálakirkju verk í minningu eiginkonunnar
Fjölmennt var að Útskálum þegar listaverkið var afhent að lokinni messu í Útskálakirkju.
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
laugardaginn 16. september 2023 kl. 04:38

Færði Útskálakirkju verk í minningu eiginkonunnar

Listaverkið „Ég bið fyrir þér – I pray for you“ eftir listamanninn Helga Valdimarsson í Garði hefur verið formlega afhjúpað við Útskálakirkju. Verkið gefur listamaðurinn til Útskálakirkju í minningu um eiginkonu sína, Gíslu S. Vigfúsdóttur, sem lést á síðasta ári. Formleg afhending á verkinu fór fram að lokinni guðsþjónustu að Útskálum á sunnudagskvöld. Jón Hjálmarsson, formaður sóknarnefndar, veitti verkinu viðtöku.

Listaverkið gerði Helgi fyrir um áratug síðan og stóð það við heimili Helga og Gíslu við Urðarbraut í Garði. Þar hefur listamaðurinn skapað ævintýragarð þar sem skúlptúrar listamannsins fylla garðinn. Einnig má sjá verk Helga víða um bæjarfélagið, í Reykjanesbæ, í Safnasafninu á Svalbarðseyri og í Connecticut í Bandaríkjunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þegar Gísla lést á síðasta ári vitjaði séra Sigurður Grétar Helga á heimili hans. Þar stóð styttan við anddyrið og nefndi Helgi það að hann vildi færa Útskálakirkju verkið og að það yrði sett upp við Útskála gegnt kirkjunni, þannig að skúlptúrinn myndi biðja fyrir öllum sem út úr kirkjunni kæmu. Erindið fór fyrir sóknarnefnd, sem samþykkti að taka við gjöfinni. Helgi og Vigfús sonur hans hafa í sumar unnið að því að koma verkinu fyrir.

Vetrarstarfið í Útskála- og Hvalsnessóknum er núna formlega hafið. Svokölluð „kósýmessa“ í Útskálakirkju markaði upphaf vetrarstarfsins þar sem Reed-fjölskyldan söng safn af lögum frá tónlistarferð fjölskyldunnar til Ítalíu í sumar. Fjölskyldan er öflug þegar kemur að tónlist og söng í Útskálakirkju, Sandgerðiskirkju og Hvalsneskirkju. Keith Reed er organisti í söfnuðunum í Suðurnesjabæ og hann er einmitt að hefja kórastarfið í þessari viku en æfing verður í Sandgerðiskirkju á fimmtudagskvöld, þar sem nýir kórmeðlimir eru velkomnir að mæta og prófa án allra skuldbindinga.

Jón Hjálmarsson, formaður sóknarnefndar Útskálasóknar, klippti á borða sem bundinn var um styttuna „Ég bið fyrir þér – I pray for you“ sem er verk eftir listamanninn Helga Valdimarsson (t.v.). Helgi gaf Útskálakirkju verkið til minningar um eiginkonu sína, Gíslu S. Vigfúsdóttur, sem lést á síðasta ári. Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur, klappar fyrir þeim. VF-myndir: Hilmar Bragi




Á vef Víkurfrétta er viðtal við séra Sigurð Grétar Sigurðsson sóknarprest um starfið sem er framundan í Útskála- og Hvalsnessóknum. Í rafrænni útgáfu Víkurfrétta er einnig hægt að horfa og hlusta á viðtalið.