Færa Þjóðbraut í Reykjanesbæ sem er að missa titil vegna lítils afla
Fyrir hefur legið í nokkurn tíma nauðsyn þess að færa Þjóðbraut, sem liggur á landi GG Bygg sem vinnur nú að uppbyggingu Hlíðarhverfis II í Reykjanesbæ. GG Bygg hefur undanfarið þrýst á það að vegurinn verði færður. Þjóðbraut er þjóðvegur í þéttbýli og sem slíkur á ábyrgð og forræði Vegagerðar.
Reykjanesbæ hafa nú borist svör frá Vegagerðinni um að Þjóðbraut væri mögulega að detta út af lista yfir þjóðvegi í þéttbýli vegna þess að afli sem kemur um hafnir sem tengjast Þjóðbraut, Keflavíkur- og Njarðvíkurhöfn, væri undir þeim mörkum sem Vegagerð setur sér sem viðmið um þjóðvegi í þéttbýli.
Vegna tímapressu hefur Guðlaugur H. Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs, lagt til við bæjaryfirvöld Reykjanesbær að þau kosti þessa framkvæmd og eigi þá kröfu á Vegagerðina þegar tryggt verður að Þjóðbraut verði áfram þjóðvegur í þéttbýli, m.a. vegna uppbyggingar við Njarðvíkurhöfn.
Hönnun liggur fyrir og farið er eftir öllum stöðlum sem Vegagerðin gerir til slíkra vega. Þá hefur GG Bygg gefið sveitarfélaginu tölu í verkið þar sem þeir eru með tæki og tól á staðnum. Niðurstöður tilboðs og kostnaðaráætlun var lögð fyrir bæjarráð Reykjanesbæjar, sem hefur samþykkt erindið og falið sviðsstjóra umhverfissviðs og bæjarstjóra að undirrita samninga við GG Bygg.
Hér má sjá frétt um opnun Þjóðbautar árið 2011.