Færa börnum fingravini að gjöf
Kvennasveitin Dagbjörg í Reykjanesbæ vill stuðla að fækkun slysa hjá ungum börnum. Dagana 26. og 27. nóv nk. mun Kvennasveitin Dagbjörg færa börnum í Reykjanesbæ gjöf.
Börn fædd 2008 fá fingravini að gjöf, en það er klemmuvörn sem sett er á hurðar og kemur í veg fyrir að börn klemmi sig.
Foreldrar eða forráðmenn barnanna fá bæklinga, einn frá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, sem inniheldur upplýsingar um öryggisvörur fyrir heimili og annan, frá Brunabót, sem inniheldur upplýsingar um eldvarnir. Einnig verður þeim færður gátlisti til að yfirfara öryggisatriði á heimilinu.
Samkvæmt slysaskrá Íslands voru á árinu 2008 skráð 1.862 heima- og frítímaslys hjá börnum 0-4 ára. Þetta eru ekki öll slys sem verða því gagnagrunnurinn nær ekki yfir allt landið.
Heima- og frítímaslys eru algengustu slysin hjá börnum og hefði mátt koma í veg fyrir mörg þeirra. „Ef við grandskoðum heimili okkar og nánasta umhverfi, getum við örugglega flest öll fundið eitthvað sem betur má fara. Þess vegna er mjög mikilvægt að við skoðum heimili okkar af og til. Byrjunin gæti verið að rifja upp þau slys eða óhöpp sem hafa orðið og hugsa um hvort eða hvernig hefði verið hægt að koma í veg fyrir þau,“ segja slysavarnakonurnar í Kvennasveitinni Dagbjörgun í Reykjanesbæ.
Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson