Fær viðbótarfrest til að fjármagna kísilver í Helguvík
Íslenska kísilfélagið hefur fengið tveggja mánaða viðbótarfrest frá helstu viðsemjendum, til 15. ágúst, til að fjármagna smíði kísilverksmiðju í Helguvík. Til stóð að framkvæmdir hæfust fyrri hluta sumars en nú er ljóst að það markmið næst ekki. Frá þessu er greint á Vísi.
Samningar um verkefnið voru undirritaðir við hátíðlega athöfn í Keflavík í febrúar, að viðstöddum bæði iðnaðarráðherra og fjármálaráðherra, sem sagði við það tækifæri að þetta væru mikilvæg skilaboð um að menn hefðu trú á framtíðinni á Íslandi, og iðnaðarráðherrann sagði að þetta væri ísbrjótur í atvinnumálum Suðurnesja.
Fyrirvarar voru hins vegar í samningum Íslenska kísilfélagsins, meðal annars við orkufyrirtækin Landsvirkjun og HS Orku, sem átti að aflétta fyrir 15. júní, en þeir sneru einkum að fjármögnun. Magnús Garðarsson, forstjóri Íslenska kísilfélagsins, vildi í samtali við Stöð 2 í gær hvorki greina frá ástæðu þess að ekki tókst að uppfylla fyrirvarana né hve langan viðbótarfrest félagið hefði fengið, en vonaðist til að verkefnið yrði ekki nema þremur vikum á eftir áætlun.
Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 tókst kísilfélaginu ekki að ljúka fjármögnun fyrir 15. júní og segja sömu heimildir að viðsemjendur kísilfélagsins hafi fallist á að framlengja frestinn til 15. ágúst. Vonast er til að 150 manns fái vinnu við smíði verksmiðjunnar næstu tvö ár og síðan verði til 90 framtíðarstörf þegar framleiðslan hefst.