Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fækkun útkalla hjá Brunavörnum Suðurnesja
Föstudagur 21. mars 2003 kl. 11:49

Fækkun útkalla hjá Brunavörnum Suðurnesja

Heildarfjöldi útkalla slökkviliðs Brunavarna Suðurnesja árið 2002, að meðtöldum sjúkraflutningum, var minni en í meðalári, eða samtals 1218 útköll á móti 1388 árið 2001, sem var meðal ár. Það eru 3,4 útköll á dag en meðaltal síðustu 4 ára hafa verið 3,8 eða tæplega 4 útköll á dag. Alls var kallað eftir aðstoð slökkviliðsins, utan sjúkraflutninga í 169 tilfellum, eða einu færri en árið 2001. Á árinu 2002 var fjöldi útkalla vegna staðfestra elda samtals 47 sem er fækkun um 14 frá árinu 2001 sem þykir athyglivert, segir á vef Reykjanesbæjar.Útköll vegna staðfestra elda eru greind í tvo meginflokka: útköll vegna elda í mannvirkjum og eldar utan mannvirkja. Mesta fækkunin var í útköllum vegna elda utan mannvirkja en þau voru færri um 16 frá árinu 2001. Fækkun útkalla er mest í eldum utan bygginga þ.e. sinueldum, eldum í bifreiðum og öðru sem rekja má til þess að kveikt hafi verið í með ásetningi eða af gáleysi s.s. í rusli og fikt með eld.

Fækkun útkalla má að miklu leyti rekja til aukinna forvarna m.a. með fræðslu og rýmingum í skólum, hertu byggingareftirliti og aukinnar eftirfylgni eldvarnareftirlits.

Mesta brunatjónið á árinu 2002 var bruni verslunarinnar Gallerí Förðun en þar var heildartjón metið á 21. milljón. Litlu mátti muna að ekki færi verr þar sem brunahólf á milli bygginga voru veikari en reglugerðir gera ráð fyrir.

Önnur brunatjón voru mun minni, en þar má nefna einbýlishús við Hæðargötu, Íþróttavallarhúsið við Hringbraut og Bakkavör.
Útköll vegna mengunaróhappa voru samtals 11 á árinu og tengdust þau flest umferðaróhöppum þ.e. olíuleki, geymasýrur og önnur upphreinsun á olíu vegna umferðaróhappa.

Þá sendi slökkviliðið aðstoð til annarra slökkviliða og má þar helst nefna brunann í Fákafeni og á Laugavegi í Reykjavík.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024