Fækkum slysum á ferðalögum
Framundan er sá tími sem flestir leggja land undir fót, njóta náttúru og þeirra afþreyingar sem í boði er um allt land. Það má því reikna með tugum ef ekki hundruðum þúsunda innlendra sem erlendra á ferð um hálendi og láglendi. Þessum fjölda ferðamanna fylgir mikil ábyrgð sem við verðum öll að taka þátt í að standa undir. Alvarleg slys á ferðalögum eru of mörg og hið sama má segja um banaslys. Orsök slysanna er af mörgum toga en oftar en ekki kemur þar við sögu rangur búnaður, veður, vanmat á aðstæðum eða ofmat á eigin getu. Aðstæður hér á landi eru oft öðruvísi en víða annars staðar og því er nauðsynlegt að koma upplýsingum um það á framfæri. Fræða þarf ferðamenn um aðstæðurnar og hvernig megi útbúa sig og ferðast á sem öruggastan hátt.
Slysavarnafélagið Landsbjörg í samstarfi við Iðnaðarráðneytið, Ferðamálastofu, Tryggingafélagið Sjóvá og fleiri aðila settu á laggir verkefnið Safetravel í upphafi sumars 2010 og er heimasíðan www.safetravel.is þingamiðjan í því verkefni. Þar má finna heilræði og fróðleik um góða ferðahegðan hér á landi. Þar má einnig finna útbúnaðarlista fyrir ýmsar tegundir ferða og hægt er að skilja eftir ferðaáætlun sína. Í viðbót við þetta verkefni hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg starfrækt Hálendisvakt björgunarsveita í nokkur ár en í tæpa tvo mánuði á hverju sumri eru björgunarsveitir til taks á fjórum stöðum á hálendinu, Kjalvegi, að Fjallabaki, á Sprengisandsleið og á svæðinu norðan Vatnajökuls. Auk þess að sinna aðstoðarbeiðnum og útköllum aðstoða sveitirnar ferðamenn á ýmsan hátt.
Þann 24. júní næstkomandi mun Slysavarnafélagið Landsbjörg minna ferðamenn á aðgæslu á ferðalögum sínum í sumar. Frá klukkan 16 – 20 þennan dag munu björgunarsveitarmenn vera á Olís stöðvum um land allt og gefa góð ráð og hvetja alla til að taka þátt í því að fækka slysum á ferðalögum. Það er hagur okkar allra.