Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fækka leikvöllum á Ásbrú úr 19 í 3
Föstudagur 6. janúar 2017 kl. 11:50

Fækka leikvöllum á Ásbrú úr 19 í 3

- Skipuleggja Ásbrú til framtíðar

Unnið er að því að fækka leikvöllum á Ásbrú úr nítján í þrjá. Þegar varnarliðið hafði aðsetur á Keflavíkurflugvelli voru leikvellirnir nítján. Að sögn Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, er nú unnið að því að fækka þeim og gera þannig úr garði að þeir uppfylli íslensk skilyrði. Hann segir gert ráð fyrir að í framtíðinni verði meirihluti íbúa á Ásbrú ungt fólk, bæði Íslendingar og útlendingar, og að störfum á Keflavíkurflugvelli muni einnig fjölga í takt við spár.

„Við þurfum að vera klár í slaginn þegar íbúum fjölgar. Það er byrjað enda hefur fjölgun íbúa í Reykjanesbæ verið mjög mikil undanfarið en við vitum ekki hvort hún verði það áfram. Við þurfum að vona það besta en vera búin undir það versta,“ segir hann.  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Talsvert er af húsnæði á Ásbrú sem ekki er í notkun núna en nýir eigendur munu taka í gegn og koma í not. Þar er einnig töluvert af götum sem aðeins er búið að byggja öðru megin við. Kjartan Már segir hægt að skipuleggja lóðir hinu megin við þessar götur. Kjartan segir því ljóst að Reykjanesbær sé ágætlega settur hvað varðar skipulagsmál og íbúarhúsnæði. Þá sé einnig mikilvægt að þjálfa fólk upp í öll þau störf sem verði til á svæðinu. „Þetta er mjög skemmtilegt og spennandi verkefni en ekki auðvelt. Það kallar á mikla samstöðu, ekki bara bæjaryfirvalda, heldur líka íbúa og allra stofnana.“

Tilkynnt var á dögunum að hagnaður Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, af sölu fasteigna varnarliðsins væri tíu milljarðar. Kjartan kveðst bjartsýnn á að hluti þess fjár renni til uppbyggingar á Suðurnesjum. „Við höfum átt marga fundi með ráðherrum og alþingismönnum undanfarin misseri og þessi mál hafa verið rædd á þeim öllum.“ Enn sem komið er hafa þó ekki komið nein loforð frá ríkisvaldinu um að hluti ágóðans renni til Suðurnesja.

Sveitarfélögin Reykjanesbær, Sandgerði og Garður vinna í sameiningu að uppbyggingu á svæði fyrir norðan flugstöðina á Keflavíkurflugvelli á bæjarmörkum sveitarfélaganna þriggja. Kjartan segir mikilvægt að svæðið verði nýtt vel og að við skipulagningu verði samfella í samvinnu við Isavia. „Það er mikilvægt að þarna rísi ekki tíu bensínstöðvar, með fullri virðingu fyrir þeim rekstri, heldur að samsetningin komi sem best út fyrir heildina.“ Nú er unnið að því að fá ríkið að verkefninu enda er það eigandi svæðisins. Óskað hefur verið eftir því að ríkið skipi fulltrúa í viðræðunefnd um svæðið en endanlegt svar hefur ekki borist.

Lengri útgáfu af viðtalinu við Kjartan Má, sem jafnframt er sjónvarpsviðtal má nálgast á vef Víkurfrétta, vf.is.