Fækka leikskóladeildum um eina í Vogum
Á bæjarráðsfundi í Vogum í gær var ákveðið að fækka deilum í leikskólanum Suðurvöllum í Vogum.
Ákvörðunin var fyrst og fremst gerð til að spara kostnað en kostnaður við hvert barn í leikskóla er tæplega ein milljón króna á ári og því yngri sem börnin eru því meiri er kostnaðurinn, segir Inga Sigrún Atladóttir, sem á sæti í bæjarráði Sveitarfélagsins Voga.
Ein deild leikskólans er núna í leiguhúsnæði og hefur leigan hækkað talsvert á síðustu árum. Ákvörðunin kemur til framkvæmda 1. ágúst 2012. Þau börn sem þá hafa fengið pláss á leikskóla halda sínum plássum þó þau séu ekki orðin 2 ára.
Aldurstakmark á leikskólann verður eftir 1. ágúst 2012 tveggja ára og er miðað við fæðingardag barnsins.
Inga Sigrún segir að þó beri að hafa í huga að fækkun á plássum á leikskólanum mun að öllum líkingum lengja biðlista tímabundið. Frá og með 1. ágúst 2012 verður Suðurvellir 3ja deilda leikskóli. Inntökureglur og reglur um forgang eru óbreyttar að öðru leyti.