Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fæddi barn eftir að hafa hossast að Reykjanesvita
Drengurinn nýfæddur eftir að móðirin hafði hossast í bíl að Reykjanesvita.
Föstudagur 18. september 2015 kl. 08:09

Fæddi barn eftir að hafa hossast að Reykjanesvita

– Vinsæll ferðamannavegur á Reykjanesi er gjörónýtur

Vegurinn að Reykjanesvita er svo slæmur að verðandi mæður eru farnar að nota veginn í fæðingarhjálp. Þeir sem aka veginn, sem er slæmur malarvegur, mega eiga von á að hossast og hristast á grjóthörðum og holóttum veginum.

Kristín Guðmundsdóttir Hammer er nýbökuð móðir í Grindavík. Hún gerði sér ferð að Reykjanesvita um hádegi síðasta laugardag með fjölskyldu sína, komin á steypirinn.

„Það er nú ekki hægt að neita því að það tók vel í bumbuna að fara þennan holótta veg og fékk ég einhverja samdrætti. Fyrstu alvöru verkirnir komu svo rúmlega 17 og drengurinn var fæddur rúmlega 22 á laugardagskvöld,“ segir Kristín í samtali við Víkurfréttir. Drengurinn fæddist jafnframt í belgnum og það er víst talið gæfumerki, þó svo vegurinn að Reykjanesvita sé ekki gæfulegur.

Drengurinn vóg 3355 gr. og var 50 sentimetrar en hann fæddist á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Bæði móður og barni heilsast vel en þau eru nú komin í faðm fjölskyldunnar í Grindavík.

Guðlaugur Helgi Sigurjónsson, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjanesbæjar hefur átt nokkra fundi með Vegagerðinni um ástand vegarins. Hann var lagaður að hluta með veghefli í sumar en keyra þarf fyllingu í veginn til að gera hann ásættanlegan. Í næstu viku mun Vegagerðin fara í verðkönnun og gera kostnaðarmat á því hvað kostar að leggja klæðningu á veginn að Reykjanesvita. Gert er ráð fyrir að fyllingarefni verði ekið í veginn nú í haust og að hann verði lagður klæðningu næsta sumar.



Eins og sjá má er ástand vegarins mjög bágborið. VF-mynd: Hilmar Bragi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024