Fá styrk til rannsóknar á nýtingu koltvísýringsútblásturs til smáþörungaræktunar
Bláa Lónið hefur hlotið styrk frá Orkusjóði til rannsókna á nýtingu koltvísýrings frá Orkuveri HS Orku hf. í Svartsengi til þörungaræktunar. Bláa Lónið mun einnig gera tilraunir með mismunandi þörungategundir með tilliti til lípíðframleiðslu til hagnýtingar í lífdísel orkugjafa. Heildarupphæð styrksins nemur 14.000 Evrum á ári til þriggja ára.
Bláa Lónið er þátttakandi í rannsóknaverkefninu LIPIDO „Optimizing Lipid Prodcution by Planktonic Algae“ eða Hámörkun lípíðframleiðslu með svifþörungum. Verkefnið er norðurevrópskt samstarfsverkefni styrkt af Norður evrópska orkurannsókna verkefninu, „N-INNER.“ Orkusjóður er aðili að verkefninu.
Markmið áætlunarinnar er að styðja við orkurannsóknir á Norðurlöndum og í Þýskalandi og miðla þekkingu á orkurannsóknasviði á milli þessara landa.
Bláa Lónið hefur stundað ræktun smáþörunga til notkunar í húðvörur Bláa Lónsins frá árinu 1996. Innan fyrirtækisins hefur skapast verðmæt þekking á þessu sviði. Ása Brynjólfsdóttir, rannsókna- og þróunarstjóri Bláa Lónsins hf. segir styrkinn mikilvægan og mikla hvatningu fyrir áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins á sviði smáþörungaræktunar.
Mynd: Ása Brynjólfsdóttir, rannsókna- og þróunarstjóri Bláa Lónsins hf.