Fá heimsendan reikning með hæsta leyfilega taxta
– ef þeir henda rusli í gáma við höfnina
Sigurður Arnar Kristmundsson, hafnarstjóri Grindavíkurhafnar, hefur sent bæjarbúum í Grindavík orðsendingu vegna sorpmála við Grindavíkurhöfn. Þar er þeim sem henda rusli í óleyfi í gáma við höfnina tilkynnt að þeir megi eiga von á því að fá sendan reikning frá höfninni á hæsta mögulega taxta sem getur skipt tugum þúsunda króna. Hafnarsvæðið sé vaktað með myndavélum og þeir sem verða uppvísir að því að henda sorpi í gámana eigi von á feitum reikningi.
„Sorpgámar á hafnarsvæði Grindavíkurhafnar eru eingöngu ætlaðir fyrir sorpmóttöku úr bátum og skipum sem koma til hafnar í Grindavík. Grindavíkurhöfn greiðir hæsta mögulega gjald til Kölku vegna þess að sorpið kemur að mestu óflokkað úr skipum. Grindavíkurhöfn getur ekki sent reikning fyrir þvottavélum, sjónvörpum eða gömlum húsgögnum áfram á viðskiptavini sína.
Á hafnarsvæðum Grindavíkurhafnar eru eftirlitsmyndavélar. Þeir sem verða uppvísir að því að henda sorpi án heimildar í gáma Grindavíkurhafnar geta á það á hættu að fá heimsendan reikning með hæsta leyfilega taxta hafnarinnar sem getur skipt tugum þúsunda króna.
Vinsamlegast snúið ykkur að Gámasvæði Kölku þar sem móttaka sorps er oft á tíðum gjaldfrjáls t.d. á raftækjum,“ segir m.a. í bréfi hafnarstjórans til íbúa í Grindavík.