Fá fjarvistir fyrir þátttöku í verkefni með bæjarfulltrúum
Sameiginlegur fundur bæjarstjórnar Reykjanesbæjar og ungmennaráðs Reykjanesbæjar var haldinn þann 2. maí síðastliðinn, í sömu viku og barna- og ungmennahátíð var í fullum gangi í bæjarfélaginu. Forseti bæjarstjórnar, Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, setti fundinn með formlegum hætti og bauð meðlimum ungmennaráðs upp í pontu.
Á fundinum fóru tólf meðlimir ungmennaráðs með fjölbreytt erindi um mál er varða börn og ungmenni. Erindin bentu öll til þess að andleg heilsa ungmenna sé mikið áhyggjuefni. Meðlimir ráðsins kom með tillögur og hugmyndir að ýmsu sem gæti bætt heilsu ungmenna í Reykjanesbæ, þar má helst nefna hugmyndir eins og að fá félagsráðgjafa í grunnskóla bæjarins, fjölga félagsmiðstöðvum, lengja opnunartíma í sundlauginni, hafa símalausa skóla, auka fjárframlög til íþróttafélaganna og auka samráð við ungmenni þegar kemur að málefnum er þau varða.
Ungmennaráðið lagði áherslur á aðrar áskoranir nútímans. Skjátími ungmenna, aukin ofbeldismenning og áskoranir sem tengjast skólagöngu meðal ungra innflytjenda voru meðal þess sem fram kom.
Þess má geta að meðlimir ungmennaráðsins eru áheyrnarfulltrúar í nefndum og ráðum bæjarins og var því einnig rætt um mikilvægi þess verkefnis og þá ómældu vinnu sem ungmennin leggja í starfið, launalaust. Þá var einnig nefnt að meðlimir fá vinnu sína í ráðinu ekki metna í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og fá fjarvistir þegar þau mæta á fundi með ráðum og nefndum á skólatíma. Formaður ungmennaráðsins talaði þá um að mikilvægt væri að ráðið myndi fá fjármagn fyrir einstaka verkefnum og laun fyrir setu þeirra á hinum ýmsu fundum.
Ráðið kom því með ýmis málefni á borð og fór yfir það sem betur mætti fara en fóru jafnframt yfir það sem vel er gert hér í bæ. Þá lofuðu þau leiksvæðinu við Kamb í Innri-Njarðvík, fögnuðu því að nú væri kominn meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu í Njarðvík og hrósuðu barna- og ungmennahátíðinni og þeim flottu viðburðum sem í boði voru á hátíðinni. Einnig hrósuðu þau Fjörheimum og starfsmönnum félagsmiðstöðvarinnar fyrir faglegt og skemmtilegt starf sem er opið öllum ungmennum bæjarins sem og unglingaráði Fjöheima en það ráð er byggir á unglingalýðræði og skipuleggur meðal annars viðburði á vegum Fjörheima.
Að lokum þakkaði bæjarstjórn ungmennaráðinu fyrir fagleg vinnubrögð, góðar ábendingar og vel undirbúnar ræður. „Ég hvet ykkur til að festa í sessi þennan neista sem þið hafið í brjósti ykkar og haldið áfram að þrýsta á okkur og alla í samfélaginu okkar. Því ykkar rödd heyrist og hún er mikilvæg,“ voru skilaboð sem Bjarni Páll Tryggvason kom áleiðis til ráðsins og voru mörg svör bæjarstjórnar í þá áttina: „Mig langar að hvetja ykkur til að halda áfram að vera þessi breyting sem þið viljið sjá í heiminum. Hvert og eitt ykkar er full fært um að lyfta grettistaki í að gera samfélagið okkar betra,“ sagði Helga Jóhanna Oddsdóttir.
Ungmennaráðið hlakkar til að vinna áfram í málefnum barna og ungmenna í góðu samstarfi við bæjarstjórn og starfsfólk Reykjanesbæjar og þakkar um leið fyrir gott samstarf á árinu.
Ungmennaráð Reykjanesbæjar.