Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fá bætur vegna myglu í leiguíbúð á Ásbrú
Þriðjudagur 13. október 2015 kl. 13:42

Fá bætur vegna myglu í leiguíbúð á Ásbrú

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að Háskólagörðum ehf. bæri að greiða pari tæplega 1.200.000 krónur með dráttarvöxtum vegna myglu í íbúð við Fjörubraut sem það leigði veturinn 2011 til 2012. Parið fær leigugreiðslur endurgreiddar, samtals að upphæð 625.175 krónur, sem og kostnað við þrif á innbúi að upphæð 450.000 krónur en þau höfðu farið fram á að fá innbú sitt bætt að fullu.

Í niðurstöðu dómskvaddra matsmanna kom fram að óverulegt magn af myglu hafi komið fram í sýnum sem tekin voru af innbúi parsins og því nokkuð líklegt að hægt verði að þrífa það. Alvarleg veikindi komu upp hjá fjölskyldunni sem þau töldu að mætti rekja til ástands íbúðarinnar en ekki var tekin afstaða til þess í dómnum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja skoðaði íbúðina að beiðni leigjendanna 14. maí 2012 og sendi í framhaldinu bréf til leigusala. Í því kemur fram að í tengslum við málið hafi heilbrigðiseftirlitinu verið lagðar til greiningarskýrslur frá Náttúrufræðistofnun Íslands um niðurstöður rannsókna á myglusýnum í íbúðinni en í þeim kemur fram að mygluvöxt hafi verið að finna í sýnum af sökkli baðinnréttingar íbúðarinnar, hurðakarmi af baði, málningu yfir sturtu, glugga baðherbergis og glugga hjónaherbergis. Var það mat Heilbrigðiseftirlitsins að greiningarskýrsla Náttúrufræðistofnunar væri afdráttarlaus og að gæta eigi fyllstu varúðar í málinu og ekki tefla heilsu fólks, þá sér í lagi barna í tvísýnu, enda væru skýr ummerki um rakaskemmdir og sýnilegan mygluvöxt í íbúðinni. Var niðurstaða heilbrigðiseftirlitsins sú að dvöl í umræddri íbúð gæti haft heilsuspillandi áhrif á fólk. 

Dóminn í heild sinni má lesa hér.