Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

F-listinn vill lægri álögur
Sunnudagur 8. júní 2008 kl. 11:31

F-listinn vill lægri álögur

„Ljóst er að staða Garðsins fjárhagslega er mjög góð eftir sölu hlutabréfa í HS enda endurspegla reikningarnir 2007 það vel. Staðan sýnir einfaldlega að auka-álögur N-listans frá því hann tók við, ættu að lækka eins og við í F-listanum bentum á við gerð síðustu fjárhagsáætlunar,“ segir í bókun F-listans í minnhluta bæjastjórnar Garðs, sem lögð var fram við seinni umræðu ársreikningsins nú fyrir helgi.

Í bókuninni minnir F-listinn á tillögur sem hann hefur lagt fram til lækkunar álaga í sveitarfélaginu og allar hafa verið felldar af meirihlutanum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


„Að ganga til baka með útsvarsprósentuna úr 13,03% í 12,7% eins og nágrannasveitarfélögin Sandgerði og Reykjanesbær eru með og bæta þannig ímynd Garðsins út á við og útsvarsgreiðendur í Garði fengju þannig notið þeirra ánægjulegu þróunar í fjárhagstöðu bæjarins með lægri álögum. N-listinn felldi þessa tillögu.

Að fasteignaskattur á íbúðahúsnæði yrði lækkað úr 0,30% í 0,28% vegna hækkunar á fasteignamatinu um 12%. Með því væri komið til móts við fasteignaeigendur til lækkunar vegna hækkunar á matinu umfram launavísitölu. N-listinn felldi þessa tillögu.

Að fasteignaskattur af fyrirtækjum yrði lækkaður úr 1,5% í 1,2% eins og var áður en N-listinn tók við. Þannig væri komið til móts við fyrirtækin vegna hækkunar á matinu og síðan en ekki síst við sjávarútvegsfyrirtækin vegna kvótaskerðingarinnar. N-listinn felldi þessa tillögu.

F-listinn hefur ávallt haft þá stefnu að stilla ætti álögunum á íbúana og fyrirtæki í hóf . Það að geta sýnt í verki að sveitarfélagið vill hafa álögur eins lágar og mögulegt er stuðlar að því að íbúarnir hafa sjálfir meiri ráðstöfunartekjur og F-listinn trúir að undir slíkri stefnu kjósi fleiri að búa og eiga heima í Garðinum.
F-listinn ítrekar þá stefnu sína að hann muni áfram berjast fyrir lægri álögum á íbúa Garðsins og leggja fram tillögur í því augnamiði við gerð næstu fjárhagsáætlunar,“ segir í bókun F-listans.

N-listin lagði einnig fram bókun þar sem segir:

„Þegar vinna við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2008 stóð yfir var mikil óvissa í efnahagsmálum þjóðarinnar og erfitt að sjá fyrir í hvað stefndi. Við slíkar aðstæður er skynsamlegast að bíða með að taka ákvarðanir um breytingar á tekjustofnum sveitarfélagsins. Erfiðleikar í þessum efnum eru ekki yfirstaðnir. Staðan verður að sjálfsögðu endurmetin við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2009 að teknu tilliti til þeirra aðstæðna sem þá verða uppi. Það er hins vegar ljóst að með stefnu og framtíðarsýn N-listans er þjónusta við íbúa Garðs aukin til muna frá því sem áður var. Bæjarbúar á öllum aldri njóta bættrar þjónustu hvort sem er í auknu framboði eða lægri þjónustugjöldum.“

Sjá einnig: Samanburður varla til neins