F-in þrjú á hávegum höfð
Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík hélt aðalfund sinn á dögunum. Starf sveitarinnar var umfangsmikið á síðasta starfsári og gekk vel. Bogi Adolfsson heldur áfram sem formaður. Þá kemur Þórdís Jóna Guðjónsdóttir ný inn í stjórn sveitarinnar. Stjórnina skipa: Bogi Adolfsson formaður, Jón V. Guðmundsson varaformaður, Guðbjörg Eyjólfsdóttir gjaldkeri, Otti R. Sigmarsson ritari. Meðstjórnendur eru Ólafur Ingi Jónsson, Þórdís Jóna Guðjónsdóttir og Björgvin Björgvinsson.
Á aðalfundinum var samþykkt eftirfarandi ályktun:
„Undanfarna áratugi hefur dauðaslysum á sjó fækkað verulega og árið 2008 náðist sá merki áfangi að enginn sjómaður lést af slysförum á íslensku skipi.
Þessu þökkum við meðal annars framförum í öryggismálum, Slysavarnaskóla sjómanna, Sjómannaskólanum og samtökum sjómanna.
Ekki má gleyma þætti útgerðarmanna sem hafa kappkostað að halda gæðum skipakosts og búnaðar.
Björgunarsveitir og slysavarnadeildir Slysavarnafélagsins Landsbjargar leika hér stórt hlutverk með markvissri fræðslu og vel útbúnum mannskap, sem hefur yfir að ráða búnaði, þekkingu, reynslu og faglegri hæfni til að annast slysavarnir, stýra aðgerðum og takast á við leit og björgun á landi og sjó.
Gildin okkar eru: Fórnfýsi - Forysta - Fagmennska.“