Eyþór með meiri stuðning en Árni Matt
Stuðningsmenn Eyþórs Arnalds létu í vikunni Capacent Gallup framkvæma skoðanakönnun á meðal kjósenda í Suðurkjördæmi. Kjósendur voru spurðir hvorn þeir myndu velja í fyrsta sætið í á framboðslista Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Arnalds eða Árna M. Mathiesen. Í ljós kom að rétt tæplega 64% völdu Eyþór en 36% vildu Árna.
Í yfirlýsingu frá stuðningsmannahópnum segir að "í ljósi þessa afgerandi stuðnings hvetja stuðningsmenn Eyþórs Arnalds hann eindregið til þess að gefa kost á sér í fyrsta sætið og leiða Sjálfstæðismenn í kjölfarið til sigurs í kjördæminu."
Ljóst er að slagurinn um forystusætið verður harður því auk þeirra tveggja sem að ofan greinir, munu Ragnheiður Elín Árnadóttir og Árni Johnsen gefa kost á sér í fyrsta sæti listans.